Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur verið ævintýri líkastur þegar fjöldi ferðamanna er annars vegar. Rétt rúmlega hálf milljón ferðamanna kom til landsins árið 2011 en á síðasta ári var fjöldinn rúmlega 2,2 milljónir. En velgengni í ferðaþjónustu verður ekki aðeins mæld í fjölda ferðamanna og nokkuð hefur hægt á vexti greinarinnar eftir uppgang síðustu ára. Afkoma rútufyrirtækjanna ber þess merki en Frjáls verslun greindi frá því að fimm stærstu rútufyrirtæki landsins hefðu tapað samtals 319 milljónum króna á árinu 2017 samkvæmt ársreikningum.
Gray Line Iceland er eitt þessara fyrirtækja. Gray Line er eitt stærsta rútufyrirtæki landsins en fyrirtækið hefur undanfarin ár haft hátt í áttatíu hópferðabíla fyrir skipulagðar ferðir. Fyrr á þessu ári þurfti Gray Line þó að ráðast í hagræðingaraðgerðir til að mæta minni tekjum.
„Allt í allt höfum við fækkað um þrjátíu og tvo starfsmenn frá því sem var áður og af þeim höfum við sagt upp tuttugu og sjö. Við ákváðum skipulega í vor að fækka bílum og höfum fækkað bílum úr 78 bílum niður í 70,“ segir Þórir Garðarsson stjórnarformaður Gray Line.
Þórir segir að það sé klárlega samdráttur í íslenskri ferðaþjónustu. „Það er klárlega samdráttur því kaupgeta erlendra ferðamanna hefur minnkað síðustu tvö árin í kjölfar styrkingar íslensku krónunnar. Við sjáum þó merki þess núna að kaupmáttur erlendra ferðamanna sé að aukast og sjáum við fram á bjartari tíma á næsta ári,“ segir Þórir.