Fótbolti

Arnór fimmti leikjahæsti og annar markahæsti Íslendingurinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arnór í leiknum í gær
Arnór í leiknum í gær vísir/getty
Arnór Sigurðsson er orðinn fimmti leikjahæsti Íslendingurinn í Meistaradeild Evrópu þrátt fyrir að hafa þreytt frumraun sína í keppninni fyrir tæpum þremur mánuðum síðan.

Arnór kom inn á í seinni hálfleik í fyrsta leik CSKA Moskvu í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í ár gegn Viktoria Plzen 19. september. Hann kom einnig inn sem varamaður í sigrinum á Real Madrid í Moskvu tveimur vikum seinna.

Síðustu fjóra leikina í riðlakeppninni byrjaði Arnór alla. Hann skoraði sitt fyrsta Meistaradeildarmark í tapinu fyrir Roma á heimavelli í nóvember og bætti öðru við í sigri á Real Madrid í gærkvöld.

Víðir Sigurðsson tók saman í Morgunblaðinu í morgun lista yfir þá Íslendinga sem flesta leiki hafa spilað í Meistaradeild Evrópu.

Eiður Smári Guðjohnsen, Ári Gautur Arason, Kolbeinn Sigþórsson og Eyjólfur Sverrisson eru þeir einu sem hafa spilað fleiri leiki en Arnór í Meistaradeildinni. Arnór deilir fimmta til sjöunda sæti listans með þeim Ragnari Sigurðssyni og Rúrik Gíslasyni sem báðir hafa spilað sex leiki eins og Arnór.

Mark Arnórs í gær gerði hann að öðrum Íslendingnum í sögunni sem hefur skorað fleiri en eitt mark í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, Eiður Smári er sá eini sem hafði áður gert það. Eiður skoraði sjö mörk fyrir Chelsea og Barcelona.

Alfreð Finnbogason er þriðji Íslendingurinn sem skorað hefur í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu, fleiri hafa ekki náð því.

Íslendingar í Meistaradeild Evrópu:

Eiður Smári Guðjohnsen, 45 leikir og 7 mörk

Árni Gautur Arason, 21 leikur

Kolbeinn Sigþórsson, 11 leikir

Eyjólfur Sverrisson, 11 leikir

Arnór Sigurðsson, 6 leikir og 2 mörk

Rúrik Gíslason, 6 leikir

Ragnar Sigurðsson, 6 leikir

Birkir Bjarnason, 5 leikir

Kári Árnason, 5 leikir

Alfreð Finnbogason, 3 leikir og 1 mark

Helgi Sigurðsson, 3 leikir

Hörður Björgvin Magnússon, 3 leikir

Sölvi Geir Ottesen, 3 leikir


Tengdar fréttir

Tilfinningin var ólýsanleg

Arnór Sigurðsson var að vonum hæstánægður með að skora í 0-3 sigri CSKA Moskvu á Real Madrid á heimavelli Evrópumeistaranna. Skagamaðurinn ungi hefði þó viljað komast í Evrópudeildina eftir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×