
„Ræða Moses Chimphepo var sérstaklega áhrifamikil en hann hvatti karlmenn og stráka í héraðinu sérstaklega til að beita sér í jafnréttismálum og tók sérstaklega fram að á sama tíma og ráðstefnan færi fram væri sextán daga átak um allan heim gegn kynbundnu ofbeldi. Héraðsstjórinn endaði ræðu sína á að þakka íslenskum stjórnvöldum sérstaklega fyrir stuðninginn undanfarin þrjátíu ár,“ segir Lilja Dóra Kolbeinsdóttir verkefnastjóri í sendiráði Íslands í Lilongve.

Unnsteinn Manuel Stefánsson, verndari UN Women á Íslandi, tók þátt í ráðstefnunni, og sýndi brot úr sjónvarpsþætti sínum Hæpið sem fjallar um hlut karla og stráka í baráttunni fyrir kynjajafnrétti við góðar undirtektir viðstaddra. Starfskonur landsnefndar UN Women á Íslandi, Stella Samúelsdóttir framkvæmdastýra og Marta Goðadóttir kynningar- herferðarstýra þjálfuðu umræðustjóra fyrir umræðuhópana. Fyrrverandi nemar Jafnréttisskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi voru meðal umræðustjóra.

Frá því að fyrsta Barbershop-ráðstefnan var haldin í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í janúar 2015 hafa hátt í 2500 manns tekið þátt í Rakarastofuviðburðum á vegum utanríkisráðuneytisins, þar af ríflega helmingur karlar. Slíkir viðburðir hafa meðal annars farið fram á vettvangi alþjóðastofnana, á Alþingi og meðal starfsmanna í utanríkisráðuneytinu. Fyrirhugað er að halda slíkan viðburð hjá Alþjóðabankanum á næsta ári.
Verkfærakistu verkefnisins má nálgast hér.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.