Hlutabréfasjóður í stýringu sjóðastýringarfyrirtækisins Landsbréfa, dótturfélags Landsbankans, er kominn í hóp stærstu hluthafa Kviku banka með ríflega 1,3 prósenta hlut. Miðað við núverandi gengi hlutabréfa í fjárfestingarbankanum er hluturinn metinn á um 210 milljónir króna.
Samkvæmt nýjum lista yfir stærstu hluthafa Kviku, dagsettum 26. nóvember, er umræddur sjóður, Landsbréf – Úrvalsbréf, tuttugasti stærsti hluthafi bankans með 1,32 prósenta hlut.
Sjóðurinn er þannig þriðji verðbréfasjóðurinn til þess að komast í hóp tuttugu stærstu hluthafa Kviku en hinir sjóðirnir tveir eru í stýringu sjóðastýringarfyrirtækisins Akta. Akta HS1 fer með um 2,2 prósenta hlut í bankanum og Akta HL1 um 1,4 prósenta hlut en báðir sjóðirnir eru fagfjárfestasjóðir.
Úrvalsbréf er næststærsti hlutabréfasjóður landsins með um sjö milljarða króna í stýringu en á meðal helstu eigna sjóðsins er 1,7 milljarða króna hlutur í Marel og 810 milljóna króna hlutur í Icelandair Group.
Gengi hlutabréfa í Kviku hefur hækkað um liðlega 14 prósent í verði undanfarinn mánuð og hefur aldrei verið hærra frá því hann var skráður á First North markaðinn í mars síðastliðnum. Gengið stóð í 8,65 krónum á hlut við lokun markaða í gær en til samanburðar var gengi bréfanna 7,9 krónur á hlut í lok fyrsta viðskiptadags í Kauphöllinni í mars.
