Kristján Georg Jósteinsson neitaði sök þegar þinghaldi var framhaldið í Icelandair-innherjasvikamálinu svokallaða. Allir þeir sem ákærðir eru í málinu hafa því tekið samhljóða afstöðu til ákærunnar, en þeir Kjartan Jónsson og Kjartan Berg Jónsson sögðust saklausir þegar málið var þingfest í júní síðastliðnum. Þá var Kristján fjarverandi, en hann er búsettur erlendis.
Mennirnir þrír eru ákærðir fyrir innherjasvik eða hlutdeild í slíku broti. Talið er að þeir hafi notfært sér upplýsingar frá Kjartani, sem hafði stöðu fruminnherja, í viðskiptum með hlutabréf í Icelandair og hagnast um rúmlega 61 milljón króna með gjörningnum.
Sjá einnig: Taldir hafa grætt um 61 milljón króna með svikum í Icelandair
Kristján Georg er fyrrverandi eigandi félagsins Fastreks, sem hét áður VIP Travel. Félagið er einnig ákært í málinu en viðskiptin með hlutabréfin voru gerð í nafni félagsins. VIP Travel var eitt sinn tengt kampavínsklúbbnum VIP Club en greiðslur til klúbbsins fóru í gegnum félagið. Nánar má fræðast um fléttuna hér.
Að sögn Finns Þórs Vilhjálmssonar, saksóknara málsins, er stefnt á aðalmeðferð í janúar. Finnur segir þó að þinghaldi verði framhaldið á morgun, því fram séu komnar gagnkröfur frá verjendum mannanna sem þurfi að taka afstöðu til.