Ítalski knattspyrnustjórinn Antonio Conte er sagður bíða eftir tilkynningu frá Real Madrid þess efnis að Julen Lopetegui verði látinn taka poka sinn hjá spænska stórveldinu og Conte taki við starfinu í kjölfarið.
Hvorki hefur gengið né rekið hjá Real Madrid í upphafi leiktíðar en liðið er með fjórtán stig eftir 9 leiki og tapaði á heimavelli fyrir Levante í gær.
Ítalskir fjölmiðlar telja sig hafa heimildir fyrir því að Conte sé í startholunum og hafi gert hæstráðendum hjá Madridarliðinu það ljóst að hann sé tilbúinn að taka við.
Spænskir fjölmiðlar höfðu áður greint frá því að Real Madrid hafi hlerað Conte í byrjun þessa mánaðar eða eftir tapið gegn CSKA Moskvu í Meistaradeild Evrópu. Síðan þá hafa tapast tveir deildarleikir, á móti Alaves og Levante.
