Erlent

50 þúsund börn dóu úr hungri og sjúkdómum í Jemen í fyrra

Samúel Karl Ólason skrifar
Faðir gefur vannærðri dóttur sinni vatn á sjúkrahúsi í Hodeida.
Faðir gefur vannærðri dóttur sinni vatn á sjúkrahúsi í Hodeida. AP/Hani Mohammed
Útlit er fyrir gífurlega hungursneyð í Jemen. Um fjórtán milljónir manna, sem samsvarar um helmingi þjóðarinnar, hafa einungis aðgengi að matvælum í gegnum hjálparsamtök. Ástandið þar fer sífellt versnandi og Mark Lowcock, yfirmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum, varar við því að neyðin sé það mikil að brátt verði ekki aftur snúið.

Við lok síðasta árs áætluðu starfsmenn hjálparsamtaka að 130 börn undir fimm ára aldrei hefðu dáið á hverjum degi vegna hungurs og sjúkdóma. Alls er talið að nærri því 50 þúsund börn hafi dáið vegna þessa í fyrra.

Sagði frá stöðunni á fundi öryggisráðsins

Lowcock hélt erindi á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag þar sem hann sagði útlit fyrir landlæga hungursneyð í Jemen. Staðan þar í landi hefði versnað til muna á undanförnum vikum. Hann sagði íbúa Jemen vera að nálgast vendipunkt þar sem ómögulegt væri að koma í veg fyrir gífurlegt mannfall.



Eins og áður hefur komið fram er talið að fjórtán milljónir manna reiði sig á hjálparsamtök til að halda lífi. Það er þremur milljónum meira en í síðasta mánuði.

Mark Lowcock.AP/Bebeto Matthews
Lowcock sagði að þó fólkið sé á lífi sé það alls ekki að fá þá næringu sem þau þurfa. Ónæmiskerfi margra séu nálægt því að hrynja og ungir og hinir eldri séu sérstaklega í hættu.

„Svo það sé á hreinu, er mat mitt, ráð mitt til ykkar, að nú sé skýr hætta á yfirvarandi hungursneyð í Jemen. Það verði mun stærra en nokkur sérfræðingur á þessu sviði hefur séð áður,“ sagði Lowcock á fundi öryggisráðsins.

Hann tók sérstaklega fram að hann hefði varað við slíkum aðstæðum tvisvar sinnum áður og í bæði skiptin hefði hungursneyð ekki skollið á. Það hefði hins vegar ekki gerst vegna þeirra aðgerða sem gripið var til í bæði skiptinn. Ástandið sé þó þar að auki mun verra en það var þá.

Báðar fylkingar sekar um brot á alþjóðalögum

Lowcock sagði einnig að báðar fylkingar í átökunum í Jemen brytu reglulega gegn alþjóðalögum og síðan í maí hefðu minnst fimm þúsund slík brot verið skráð. Þar á meðal annars við árásir á almenna borgara og mikilvæg innviði eins og sjúkrahús, vatnsdælur, vegi og brýr.

Stríðið í Jemen hefur geisað frá árinu 2015. Uppreisnarmenn Húta hafa sölsað undir sig stóran hluta landsins. Sádi-arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin ásamt sjö öðrum arabaríkjum hafa hlutast til í landinu til aðstoðar stjórnarhernum. Bandalagsherinn hefur notið stuðnings Breta, Bandaríkjamanna og Frakka.


Tengdar fréttir

Mótmæli þegar jemensku börnin voru borin til grafar

Fjörutíu börn, sem öll voru fimmtán ára eða yngri, fórust í árás hers Sáda á rútu á markaði í bænum Dahyan í Saada-héraði í norðvesturhluta Jemen síðastliðinn fimmtudag.

Forsaga hörmunganna í Jemen - fyrri hluti

Reglulega berast Íslendingum samhengislitlar fréttir af neyð og skelfingum í Jemen. Þar ríkir stríðsástand og hungursneyð sem gerir landið að versta hörmungasvæði heims um þessar mundir að mati Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×