Enska tónlistarkonan Amy Winehouse, sem lést árið 2011 úr áfengiseitrun, fer í tónleikaferðalag seint á næsta ári. Heilmynd af söngkonunni mun stíga á svið og flytja hennar þekktustu lög, til að mynda Rehab, Valerie og Back to Black. Frá þessu greindi faðir hennar, Mitch Winehouse, á Twitter.
„Fjölskylda okkar gleðst mjög yfir því að vera komin í samstarf við Base Hologram og munum við saman fagna ferli og ævi Amy. Allar tekjur af tónleikaferðalaginu munu renna í Amy Winehouse Foundation svo hægt sé að hjálpa ungu fólki í hennar nafni,“ sagði Mitch Winehouse en góðgerðarsjóðurinn sem um ræðir styður ungt fólk sem á við fíknivanda að stríða.
Base Hologram sagði svo í tilkynningu að með heilmyndinni af Winehouse myndi hljómsveit spila. Þá myndu gestasöngvarar einnig taka þátt í tónleikaferðalaginu.
Faðirinn gleðst yfir heilmynd af Amy Winehouse
