Viðskipti innlent

Landsmenn sækja helst fréttir á vefsíðum fréttamiðla

Atli Ísleifsson skrifar
Ungt fólk er líklegra en eldra til að sækja fréttir af vefsíðum fréttamiðla.
Ungt fólk er líklegra en eldra til að sækja fréttir af vefsíðum fréttamiðla. Vísir/Getty
Helmingur Íslendinga sækir helst fréttir af vefsíðum fréttamiðla. Átján prósent segjast helst sækja fréttir í sjónvarp og níu prósent í útvarp. Einungis fjögur prósent segjast helst sækja fréttir í dagblöð, en níu prósent sækja helst fréttir af samfélagsmiðlum.

Þetta sýna niðurstöður könnunar MMR sem framkvæmd var í síðasta mánuði. Í frétt á vef MMR segir að hærra hlutfall karla (58 prósent) en kvenna (50 prósent) segjast helst sækja fréttir af vefsíðum, fréttamiðlum eða öðrum síðum.

Ungt fólk líklegra

Ungt fólk er líklegra en eldra til að sækja fréttir af vefsíðum fréttamiðla. „Hlutfalli þeirra sem sækja helst fréttir á vefsíður fréttamiðla fór lækkandi í takt við hækkandi aldur en einungis 15% þeirra 68 ára og eldri kváðust helst sækja fréttir af vefsíðum fréttamiðla. Svarendur elsta aldurshópsins kváðust aftur á móti helst sækja sér fréttir í sjónvarp (43%), útvarp (26%) eða dagblöð (12%). Þá er ljóst að sjónvarpsmiðlar, útvarp og dagblöð eiga á brattan að sækja hjá ungu fólki en einungis 2% þeirra á aldrinum 18-29 ára kváðust helst sækja sér fréttir í sjónvarp, 1% í útvarp og 1% í dagblöð en 6% kváðust ekki fylgjast með fréttum,“ segir í fréttinni.

Mynd/MMR
Þegar litið var til stjórnmálaskoðana mátti sjá að 66 prósent af stuðningsfólki Pírata og 59 prósent af stuðningsfólki Viðreisnar sögðust helst sækja fréttir af vefsíðum fréttamiðla. „Aðeins 35% af stuðningsfólki Flokks fólksins kvaðst helst sækja sér fréttir af vefsíðum fréttamiðla en 20% þeirra kváðust hins vegar helst sækja fréttir í útvarp og 11% í dagblöð. Af stuðningsfólki Vinstri grænna kváðust 28% helst sækja fréttir í sjónvarp, samanborið við aðeins 9% stuðningsfólks Pírata. Þá var stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins (13%) líklegast til að sækja helst fréttir á samfélagsmiðla en stuðningsfólk Pírata (4%) og Samfylkingarinnar (3%) var líklegast til að segjast ekki fylgjast með fréttum.“

Nánar má lesa um könnunina á síðu MMR.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×