Handbolti

Einar Andri um rauðu spjöldin: „Fróðlegt að sjá hvernig þetta þróast“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Einar Andri í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Einar Andri í kvöldfréttum Stöðvar 2. vísir/skjáskot
Rauðu spjöldin í Olís-deild karla hafa verið mikið í umræðunni en ansi mörg rauð spjöld hafa farið á loft í fyrstu umferðunum.

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, segir að það eigi enn eftir að koma jafnvægi á þetta og segir að þó hafi farið rauð spjöld á loft fyrir smávægileg brot.

„Það er klárlega búið að leggja harðari línu fyrir dómarana. Það er minni þröskuldur en við höfum séð undanfarin ár,” sagði Einar Andri í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Menn hafa ekki hikað við það í byrjun móts að gefa rauð spjöld. Þetta er nýtt og það sést best í því að við erum ekki að sjá neina minnkun milli umferða. Liðið og leikmennirnir eru ekki að ná að aðlaga sig að þessu.”

„Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta þróast. Það var talað um á fundum fyrir mót að það ætti að taka á hörðum leik. Ég held samt að við höfum séð ákveðinn brot sem eru ekki endilega einhver ruddagangur.”

„Ég held að við eigum enn þá eftir að finna jafnvægið í þessu. Ég vona að leikmennirnir og dómararnir taki þetta til sín svo að það komi betra jafnvægi í þetta.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×