Brautin í Sochi er í raun götubraut, þar sem ekið er á götum Ólympíuþorpsins sem smíðað var fyrir Vetrarólympíuleikanna árið 2014. Fyrsti kappaksturinn á brautinni var einmitt í október það ár og hefur verið keppt í Rússlandi síðan.
Þegar horft er á kort af brautinni er ekki annað hægt en að horfa á þriðju beygju. Vinstri beygjan er í raun fullkominn hálfhringur með 750 metra radíus. Því reynir sérstaklega á hægri dekk bílanna í kappakstrinum.

Ljóst er að einungis Hamilton og Vettel eiga möguleika á titli ökumanna og lið þeirra, Mercedes og Ferrari berjast um titil bílasmiða.
Takist Lewis að auka forskot sitt í Rússlandi gæti það gert út um sigurvonir Vettel, þó að Sebastian muni þó eiga stærðfræðilega möguleika á titli.
Ekki er öll nótt úti hjá Ferrari ökumanninum. Klári hann allar þær sex keppnir sem eftir eru á undan keppinaut sýnum verður hann að öllum líkindum heimsmeistari. Því er öll pressan á Vettel um helgina og má því búast við algjörri flugeldasýningu frá Þjóðverjanum.
Bílarnir verða ræstir af stað í kappakstrinum klukkan 11 á sunnudaginn. Að sjálfsögðu verður keppnin í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport ásamt tímatökum og æfingum.