Sjá einnig: Argento greiddi ungum leikara fyrir að þegja um meint kynferðisbrot
Greint var frá því í gær að bandaríski leikarinn Jimmy Bennett hefði sakað Argento um að brjóta á honum kynferðislega á hótelbergi árið 2013. Bennett var 17 ára þegar hin meintu brot eiga að hafa átt sér stað en Argento var 37 ára. Þá á Argento að hafa greitt Bennett nær 41 milljón íslenskra króna fyrir að þegja um brotin.
Lögreglustjórinn Darren Harris tjáði fjölmiðlum að rannsakendur muni reyna að ná tali af Bennett eða talsmönnum hans vegna ásakananna.

Argento hefur enn ekki tjáð sig um málið en erlendir fjölmiðlar sem fjallað hafa um ásakanirnar hafa ítrekað leitað eftir viðbrögðum frá henni. Bennett hyggst hvorki tjá sig frekar um gögn málsins né atvikið sjálft fyrr en í fyrsta lagi í dag, þriðjudag.
Argento og Bennett fóru með hlutverk mæðgina í kvikmyndinni The Heart Is Deceitful Above All Things árið 2004.
Argento steig fram nýverið og sakaði kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um að hafa nauðgað sér á hótelherbergi árið 1997. Hún hefur síðan verið einn helsti forsprakki #MeToo-hreyfingarinnar, sem hlaut gríðarlegan meðbyr eftir að fjölmargar konur stigu fram og sökuðu Weinstein um kynferðisofbeldi.