Bændur í nágrenni við verksmiðju þýska bílaframleiðandans í Pueblo í Mexíkó hafa sakað forsvarsmenn verksmiðjunnar um að skemma uppskeru þeirra í viðleitni bílaframleiðandans til að koma í veg fyrir að hagl myndist.
Haglið getur skemmt þá bíla sem bíða eftir að verða sendir í burtu eftir framleiðslu en eru þeir geymdir utan dyra við verksmiðjuna. Til þess að koma í veg fyrir að haglið myndist notast bílaframleiðandinn við svokallaðar „haglfallbyssur,“ byssur sem skjóta hljóðmerkjum í loftið.
Hljóðið er sagt leysa upp haglið og á því að koma því í veg fyrir að það falli á bílana með tilheyrandi skemmdum.
Vilja bændurnir í nágreni verksmiðjunnar meina að notkun á haglfallbyssum hafi orðið til þess að ekki hafi rignt í dágóðan tíma, sem hafi skemmt uppskeru þeirra.
Í frétt CNN segir að Volkswagen hafi fallist á að minnka notkun á fallbyssunum í viðleitni til þess að ergja ekki bændurna en þýski bílaframleiðandinn telur þó að ekkert bendi til þess að samasemmerki sé á milli lítils regnfalls og notkunar á byssunum.
