Rannsókn bandarískra vísindamanna bendir til þess að hægt sé að nota venjulegt þráðlaust net til þess að finna vopn og sprengjur á opinberum stöðum. Netið væri þannig hægt að nota sem ódýrt öryggiseftirlit á stöðum eins og flugvöllum, söfnum og íþróttaleikvöngum.
Merkið frá þráðlausu neti getur farið í gegnum töskur og fatnað. Með því að mæla áhrifin á geislana þegar þeir endurvarpast af hlutum er hægt að mæla stærð málmhluta og rúmmál vökva, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Tilraunir vísindamanna undir forystu Rutgers-háskóla í New Jersey benda til þess að tæknin sé áreiðanleg í 95% tilvika. Áreiðanleikinn er allt að 99% fyrir hættulega hluti, 98% fyrir málmhluti og 95% fyrir vökva. Nákvæmnin minnkaði niður í 90% af hlutunum var pakkað inn í töskur.
Aðeins þyrfti þráðlaust tæki með tveimur til þremur loftnetum til að nýta þráðlaust net við öryggisleit. Auðveldlega er hægt að nota núverandi þráðlaus net á opinberum stöðum.
