Fótbolti

Higuain á leið til Milan í skiptum fyrir Bonucci

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Bonucci og Chiellini virðast vera að sameina krafta sína að nýju
Bonucci og Chiellini virðast vera að sameina krafta sína að nýju vísir/afp
Argentínski sóknarmaðurinn Gonzalo Higuain hefur samþykkt að ganga til liðs við AC Milan frá Juventus sem hluti af samkomulagi liðanna vegna félagaskipta þriggja leikmanna.

Ítalskir fjölmiðlar greindu frá þessu í morgun og telja að tilkynningar frá þessum tveimur risafélögum muni verða opinberaðar síðar í dag.

Samkvæmt þessum fréttum mun Leonardo Bonucci snúa aftur til Juventus frá AC Milan en auk Higuain fer miðvörðurinn ungi, Mattia Caldara, til AC Milan frá Juventus.

AC Milan borgar 18 milljónir evra fyrir að fá Higuain að láni í eitt tímabil en hefur svo forkaupsrétt á honum fyrir 36 milljónir evra næsta sumar. 

Higuain hefur leikið með Juventus undanfarin tvö ár og skorað 55 mörk í 105 leikjum fyrir félagið. Hann lék áður með Napoli, Real Madrid og River Plate.

Hin stórstjarnan í þessum skiptum; varnarmaðurinn gríðarsterki Bonucci er þar með að snúa aftur til Juventus eftir aðeins eins árs fjarveru en hann gekk í raðir AC Milan frá Juventus síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×