Íslandsbanki hefur ákveðið að bjóða vildarviðskiptavinum sínum ekki í laxveiði í sumar eins og tíðkast hefur undanfarin ár. Þetta staðfestir Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri bankans, við Fréttablaðið.
Fréttablaðið greindi frá því í fyrra að Íslandsbanki hefði boðið völdum viðskiptavinum í veiði í Norðurá. Bankinn var þá kominn að fullu í eigu ríkisins en ekki fékkst uppgefið hver kostnaðurinn var né hverjum eða hversu mörgum var boðið. Landsbankinn lagði af allar boðsferðir sem þessar eftir hrun.
Íslandsbanki og Arion banki hófu að bjóða völdum viðskiptavinum sínum í laxveiði á ný eftir hrun árið 2014, þótt íburðurinn hafi verið minni en fyrir hrun. Þá vörðu bankarnir milljörðum í boðsferðir sem rannsóknarskýrsla Alþingis kallaði birtingarmynd óhófs. Ríkisbankarnir tveir virðast nú sameinaðir í að leggja laxveiðiboðsferðirnar af.
Þá fengust þær upplýsingar hjá Landsbankanum og Íslandsbanka að bankarnir hafi hvorki boðið viðskiptavinum né starfsmönnum á leik á HM í Rússlandi.
