Erlent

19 ára rappari handtekinn fyrir mannrán

Hjalti Freyr Ragnarsson skrifar
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem YoungBoy Never Broke Again kemst í kast við lögin.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem YoungBoy Never Broke Again kemst í kast við lögin. Vísir/Getty
19 ára gamli bandaríski rapparinn Kendell Desean Gaulden, sem er betur þekktur undir nafninu YoungBoy Never Broke Again, var handtekinn aðfaranótt sunnudags í Tallahassee í Flórída. Hann var í þann mund að fara að koma fram fyrir fullu húsi á tónleikum á klúbbnum The Moon þegar handtakan fór fram. Í Waycross í Georgíu hafði hann áður verið sakaður um líkamsárás, vopnalagabrot og mannrán. Hann var þar með á flótta undan handtökuskipun og handtók lögreglan í Tallahassee hann fyrir þær sakir. TMZ greindi fyrst frá en skýrslur löreglustjóra Leon-sýslu staðfesta þetta.

Rapparinn var í ágúst í fyrra dæmdur í 10 ára fangelsi vegna skotárásar, en hann er talinn hafa átt þátt í svokallaðri „drive-by“ árás í Baton Rouge 2. nóvember 2016. Honum var sleppt úr haldi og dómur hans styttur í þriggja ára skilorðsbundinn dóm eftir að hann samþykkti að játa sig sekan fyrir vægara brot, en upprunalega var hann kærður fyrir morð af fyrstu gráðu. Hann er því á skilorði og hefur mögulega rofið það í þessari atburðarás.

Fyrir þá sem ekki þekkja til rapparans hefur hann vakið mikla athygli á síðustu misserum fyrir lög á borð við „Untouchable“, „Outside Today“ o.fl., en von er á fyrstu plötu hans sem ber titilinn Until Death Call My Name 2. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×