Breski kaupsýslumaðurinn Vincent Tchenguiz hyggst höfða dómsmál á hendur hótelkeðjunni Hilton en hann sakar stjórnendur keðjunnar um að reyna að koma í veg fyrir sölu hans á tíu Hilton hótelum í Bretlandi.
Tchenguiz setti umrædd hótel, þar á meðal 603 herbergja Kensington-hótelið í Lundúnum, á sölu á síðasta ári og var verðmiðinn um 600 milljónir punda. Ekki tókst hins vegar að selja hótelin og gripu lánveitendur þeirra í kjölfarið til þess ráðs að fara fram á greiðslustöðvun.
Kaupsýslumaðurinn telur að hótelkeðjan og tveir vogunarsjóðir hafi beitt sér í sameiningu gegn því að hótelin yrðu seld og þvingað auk þess fram greiðslustöðvun. Ætlun þeirra hafi síðan verið að kaupa hótelin á hrakvirði.
Tchenguiz keypti hótelin af Hilton keðjunni árið 2006. Keðjan sér þó um rekstur þeirra til ársins 2029.
Eins og kunnugt er náði Tchenguiz sátt við Kaupþing í október á síðasta ári sem fól í sér að málsókn hans á hendur Kaupþingi var dregin til baka. Tchenguiz hafði áður krafist þess að Kaupþing greiddi honum 2,2 milljarða punda í skaðabætur.
