Xavi, fyrrverandi leikmaður Barcelona, segir að Lionel Messi sé mun betri leikmaður en Cristiano Ronaldo.
Eftir að Ronaldo tók við sínum fimmta Gullbolta fyrr í mánuðinum sagði Portúgalinn að hann væri besti leikmaður fótboltasögunnar.
Xavi er ekki sammála þessari skoðun Ronaldos og segir að Messi sé sá besti fyrr og síðar.
„Messi gerir meira miðað við Ronaldo. Messi er sá besti,“ sagði Xavi.
„Ef Ronaldo telur sig vera besta leikmann í heimi er það fínt. En fyrir okkur við sem höfum séð hann [Messi] æfa er þetta engin spurning. Messi er sá besti í sögunni.“
Messi og Ronaldo verða væntanlega í eldlínunni þegar erkifjendurnir Barcelona og Real Madrid mætast á Santiago Bernabéu í hádeginu á morgun.
