Handbolti

Einar Andri: Gef þeim hæstu einkunn fyrir þennan leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einar Andri ræðir við sína menn.
Einar Andri ræðir við sína menn. vísir/eyþór
Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, var afar sáttur með sigurinn á Stjörnunni og frammistöðu sinna manna.

„Mér fannst við frábærir. Sóknin var frábær, gríðarleg bæting frá síðasta leik gegn Fram í bikarnum. Hugarfar leikmanna var gott og mikil samheldni og einbeiting í hópnum. Ég gef þeim hæstu einkunn fyrir þennan leik,“ sagði Einar Andri.

Hann sagði að Mosfellingar hafi verið staðráðnir í að bæta upp fyrir tapið gegn Fram í Coca Cola-bikarnum á fimmtudaginn.

„Ef það er eitthvað varið í menn koma þeir og svara. Fyrir þennan leik vorum við búnir að spila mjög vel í sjö deildarleikjum í röð. En þá styttist alltaf í slaka leikinn og því miður kom hann í bikarnum. Það var súrt,“ sagði Einar Andri.

Þjálfarinn dregur ekki fjöður yfir það að árangur Aftureldingar fyrir áramót sé vonbrigði.

„Hann er heilt yfir vonbrigði. Við vorum bara með eitt stig eftir fyrstu sex umferðirnar. En við erum sex sigra í síðustu átta leikjum. Heilt yfir eru þetta vonbrigði en á sama tíma erum við í 6. sæti. Holan er ekki dýpri en það og það eru sóknarfæri að bæta sig,“ sagði Einar Andri að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×