Hinn 75 ára gamli Mladic, sem gekk undir nafninu „Slátrari Bosníu“, hefur alla tíð neitað sök.

Skömmu áður en úrskurður dómstólsins var lesinn upp var Mladic vísað úr dómsal eftir að hann öskraði á dómarana þrjá. Lögmaður hans hafði beðið um að dómsuppkvaðningunni yrði frestað þar sem blóðþrýstingur Mladic væri mjög hár. Það var ekki samþykkt.
Samkvæmt AP fréttaveitunni brutust út mikil fagnaðarlæti meðal mæðra fórnarlamba Srebrenica fjöldamorðsins. Þá brutust út smávægileg slagsmál í salnum.
Sonur Mladic sagði að niðurstaðan hefði ekki komið sér á óvart. Hann sagði dómstólinn hafa verið gegn föður sínum frá upphafi.
Stríðsglæpadómstólnum var komið á fót í Haag árið 1993 og var hann sá fyrsti sinnar tegundar frá því að stríðsglæpadómstólum var komið á í Nürnberg og Tókýó í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar. Réttarhöld í máli Mladic hófust árið 2012 og hafa alls 377 vitni verið kölluð til – 169 af saksóknurum og 208 af verjendum Mladic.
Mál Mladic er það síðasta sem verður lagt fyrir dómstólinn. Alls hafa 84 manns verið sakfelldir hjá dómnum og nítján verið sýknaðir.