Handbolti

Kristján Örn: Ljósin slökkt eftir tíu mínútur

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Kristján skoraði meira en helming marka Fjölnis í kvöld
Kristján skoraði meira en helming marka Fjölnis í kvöld vísir/eyþór
„Við vorum allavega ekki að búast við að mæta svona í leikinn,“ sagði Kristján Örn Kristjánsson, leikmaður Fjölnis, í samtali við Vísi eftir leik Fjölnis og ÍR í Olís deildinni í handbolta í kvöld.

Fjölnir tapaði gegn ÍR með 16 mörkum, 36-20, en Kristján var undrandi á hversu slakur leikur liðsins var í kvöld.

„Við vorum að spila gegn Íslandsmeisturum Val um daginn og við gáfum þeim hörkuleik og svo mætum við hingað og erum að tapa með 11 mörkum í fyrri hálfleik. Það var alls ekki það sem við vorum að leggja upp með.“

Fjölnir átti svipaðan leik gegn Selfossi á dögunum en þá varð slæm byrjun þeim einnig að falli.

„Leikurinn gegn Selfossi var á svipuðu róli. Við byrjum mjög illa og þeir fara fram úr okkur. Þá er voða lítið ljós eftir á ganginum. Í dag þá slokknaði ljósið bara eftir 10 mínútur. Það var enginn á fullu í þessum leik og þ.á.m. ég.“

Kristján skoraði 11 mörk af 20 mörkum Fjölnis og þrátt fyrir að hafa sjálfur sagst eiga slæman leik eins og allir aðrir í liðinu sagði hann að fleiri mörk yrðu að koma frá fleirum í liðinu.

„Það vantar klárlega mörk frá öðrum í sóknarleiknum okkar. Við fengum fullt af dauðafærum. Fleiri dauðafæri en við skoruðum í heild sinni. Við áttum klárlega að nýta þau betur.“

Næsti leikur er gegn ÍBV og segir Kristján ekki spurning að liðið verði að gera betur en þeir gerðu í kvöld.

„Ef við gerum það þá munu þeir bara rasskella okkur og senda okkur heim. Megum ekki sýna svona ömurlega frammistöðu ef við ætlum okkur eitthvað í þessari deild.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×