Handbolti

Sjáðu nær fullkomna frammistöðu Sigurbjargar | Myndband

Sigurbjörg Jóhannsdóttir með boltann í leiknum í gærkvöldi.
Sigurbjörg Jóhannsdóttir með boltann í leiknum í gærkvöldi. vísir/ernir
Íslandsmeistarar Fram í Olís-deild kvenna í handbolta urðu í gær meistarar meistaranna þegar að Safamýrarstúlkur lögðu bikarmeistara Stjörnunnar, 30-27, í Meistarakeppni HSÍ.

Stjarnan var þremur mörkum yfir í hálfleik, 17-14, og ekki nóg með það heldur meiddist leikstjórnandi Fram, Karen Knútsdóttir, undir lok fyrri hálfleiks og tók ekki frekari þátt í leiknum.

Útlitið var gott fyrir Garðbæinga, fjórum mörkum yfir í stöðunni 19-15, en þá tók Sigurbjörg Jóhannsdóttir til sinna ráða. Sigurbjörg hefur stýrt sóknarleik Fram um árabil en byrjaði leikinn í vinstra horninu þar sem Karen hefur hirt stöðu hennar á miðjum velinum.

Sigurbjörg minnti heldur betur á sig í sinni réttu stöðu og skoraði átta mörk í seinni hálfleik og leiddi Íslandsmeistarana til sigurs. Hún spilaði nær fullkominn leik í seinni hálfleiknum og var maður leiksins ásamt markverðinum Guðrúnu Ósk Maríasdóttur sem varði 19 skot í marki Íslandsmeistaranna.

Sigurbjörg skoraði í heildina níu mörk úr níu skotum og var því með 100 prósent skotnýtingu en hún nýtti líka bæði vítaskotin sín. Hún gaf tvær stoðsendingar, skapaði þrjú færi og tók tvö varnarfráköst. Hún var með langhæstu sóknareinkunn allra á vellinum í tölfræði HBStatz eða 9,5 og fékk heildareinkunn upp á 8,8.

Hér að neðan má sjá frammistöðu Sigurbjargar frá Facebook-síðu Seinni bylgjunnar, uppgjörsþáttar Stöðvar 2 Sports um Olís-deildirnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×