Útgáfufélag Fréttatímans, Morgundagur ehf., er komið í gjaldþrotameðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Enn hefur ekki verið skipaður skiptastjóri.
Kjarninn greinir frá þessu og þar segir að tilraunir til að endurreisa úgáfuna hafi runnið í sandinn. Fréttatíminn hefur ekki komið út síðan í apríl og enn hafa einhverjir fyrrverandi starfsmenn blaðsins ekki fengið borguð laun fyrir marsmánuð.
Eigendur Morgundags eru, samkvæmt vef fjölmiðlanefndar, Gunnar Smári Egilsson sem á 46% hlut, Valdimar Birgisson sem á 25% og Dexter fjárfestingar ehf. í eigu Sigurðs Gísla Pálmasonar á 29%.
Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson seldu 36% hlut sinn í Morgundegi í janúar síðastliðnum en þeir fóru inn í eigendahópinn í nóvember 2015 þegar nýr eigendahópur tók við rekstri Fréttatímans og Gunnar Smári Egilsson tók við ritstjórn ásamt Þóru Tómasdóttur.
