

"Við náum engum takti í seinni hálfleik og leyfum þeim að stjórna ferðinni,“ segir Ísak Rafnsson, leikmaður FH, eftir tapið gegn Val í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik sem fram fór í Kaplakrika. Valur vann einvígið 3-2.
Valur er Íslandsmeistari í handknattleik karla eftir 27-20 sigur á FH í oddaleik í Kaplakrika. Valsmenn tryggðu sér titilinn með frábærum seinni hálfleik en staðan í hálfleik var 11-9 fyrir FH.
"Tilfinningin er auðvitað alveg mögnuð. Ég veit ekki hvað ég á að segja, það var erfitt að vera útaf seinustu átta mínúturnar en þeir bara kláruðu þetta. Þetta er ótrúlegt,“ sagði Ýmir Örn Gíslason leikmaður Vals í samtali við Vísi eftir sigurinn á FH í dag þar sem Valsmenn tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik.
Valsmenn tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik eftir sjö marka sigur á FH í oddaleik í Kaplakrika í dag. Þjálfarar Vals, þeir Guðlaugur Arnarsson og Óskar Bjarni Óskarsson, voru vitaskuld hæstánægðir þegar Vísir hitti þá að leik loknum í dag.