Tíska og hönnun

Síða hárið fær að fjúka í sumar

Elín Albertsdóttir skrifar
Daníel Örn, eða Danni, hárgreiðslumeistari. Myndin er úr þættinum Heimsókn á Stöð 2.
Daníel Örn, eða Danni, hárgreiðslumeistari. Myndin er úr þættinum Heimsókn á Stöð 2.
Síða hárið sem einkennt hefur tísku síðustu ára fær að fjúka fyrir sumarið. Nú á hárið að vera í axlasídd, frjálslegt með ljósum og mjúkum tónum. Stjörnurnar í Hollywood eru hver af annarri að breyta hárgreiðslunni.

Daníel Örn Hinriksson, hárgreiðslumeistari og eigandi hárgreiðslustofunnar Senter, segist verða mikið var við að konur vilji breytingu.

„Það er eins og einhver ferskur blær hafi komið yfir okkur og síða hárið fær að fjúka. Ég fór að taka eftir þessum breytingum eftir áramótin. Allt þetta síða, mikla hár sem er búið að vera í tísku og leit út fyrir að vera ólitað og óklippt fær núna meðhöndlun með skærunum. Það er engin spurning að hárið verður styttra í sumar, frjálslegra og með ljósum og gylltum mjúkum tónum. Núna eiga strípurnar að fara niður í rót. Einnig hefur aukist að beðið sé um aflitaðar strípur sem ekki hafa verið lengi,“ segir Daníel og bætir við að allar stuttar, flottar línur séu mjög vinsælar í dag. „Klippingar, til dæmis stuttar í hnakkann en með lengd í toppnum eru að koma mikið inn hjá okkur. Við hárgreiðslufólk fögnum því að fá aftur svona alvöru klippingar og línur,“ segir Daníel.

„Toppurinn er oft jafn síður og hárið en það er einnig flott að láta hann líta út eins og „gamlan“ topp en þá fellur hann vel inn í hárið. Það er eins og hann sé aðeins úr sér vaxinn. Það er minna um beina toppa,“ segir hann. „Annars má segja að allt sé í tísku í klippingum, þetta fer svoldið eftir hvað passar andlitsfallinu. Hér áður fyrr voru allir með eins klippingu, ef Jennifer Aniston klippti hárið stutt vildu allir vera með stutt eins og hún. Jennifer hafði gríðarlega áhrif á tískuna. Núna er meira frjálsræði í tískunni,“ segir Daníel.

Hann segir að mikil aukning sé í permanenti hjá yngri herrum. Það sé nýtt í herrahártískunni. „Strákar vilja vera vel klipptir með létta liði og vel snyrt skegg. Það er fjölbreytni í hártískunni hjá strákunum eins og stelpunum og fólk vill breytingu.“

Myndir hafa birst á erlendum netsíðum sem sýna stjörnur á borð við Kim Kardashian, Victoriu Beckham, Rose Leslie, Chloe Grace Moretz, Lea Seydoux, Bellu Hadid, Anne Hathaway og margar aðrar frægar konur sem hafa klippt síða hárið. Það ætti því að vera í lagi að huga að breytingu fyrir sumarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×