Ferrari menn leiddu allar þrjár æfingarnar, þess var að vænta að baráttan um ráspól yrði hörð. Mercedes vélarnar hafa svokallaða tímatökustillingu sem gefur talsvert aukaafl í einn hring.
Fyrsta lota
Ferrari menn komu út á brautina á ofur-mjúkum dekkjum á meðan allir aðrir notuðust strax við últra mjúku dekkin sem er mýksta útgáfan sem í boði er þessa helgina.
Bottas var fljótastur í lotunni á Mercedes bílnum.
Romain Grosjean á Haas féll út í fyrstu umferð, hann lenti í bremsuvandræðum á æfingum og skipti aftur yfir í Brembo bremsur. Það er spurning hvort hausinn sé farinn að stýra Grosjean í ógöngur því Haas bíllinn getur betur en þetta. Kevin Magnussen komst til að mynda áfram í aðra umferð, þó tæpt hafi verið.
Auk Grosjean féllu út; Jolyon Palmer á Renault, Stoffel Vandoorne á McLaren og Sauber ökumennirnir.

Allir ökumenn í annarri lotu óku á últra-mjúkum dekkjum. Eftir fyrstu tilraunir allra var Bottas fljótastur og Hamilton var annar. Þar á eftir komu Ferrari menn, tæplega 0,8 sekúndum á eftir Bottas.
Annaðhvort var Mercedes að spara sig á æfingum og setti í gírinn í tímatökunni eða þá að Ferrari menn gerðu bara það sem til þurfti til að komast áfram og spara með því dekkin. Tíu fljótustu ökumennirnir í annarri lotu þurfa að hefja keppnina á þeim dekkjagangi sem þeir settu sinn hraðasta tíma á í lotunni.
Í annarri lotu duttu út; Fernando Alonso á McLaren, Kevin Magnussen á Haas, Toro Rosso ökumennirnir og Lance Stroll á Williams.
Þriðja lota
Nico Hulkenberg á Reaunlt truflaði Hamilton á úthringnum svo Hamilton hætti við að hefja tímatökuhring.
Raikkonen setti mjög góðan tíma og var fljótastur fyrir lokatlögu allra. Bottas var annar einungis 0,036 á eftir landa sínum. Vettel var þriðji og Hamilton fjórði. Síðasta umferðin var afar spennandi. Raikkoenn hefur tekið þátt í 127 keppnum síðan hann náði ráspól síðast, í Frakklandi 2010.
Raikkonen náði ekki að bæta sinn tíma. Vettel tók ráspólinn af Raikkonen og Mercedes menn náðu ekki að svara. Ferrari náði báðum bílum á fremstu ráslínu í fyrsta skipti síðan 2008.