Það eru gríðarlega spennandi lokaumferðir framundan í Olís-deild karla en FH-ingar gerðu sitt og jöfnuðu Hauka og ÍBV að stigum með 28-20 sigri á Gróttu í dag en eftir það þýðir að öll þrjú liðin eru jöfn þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.
FH-ingar eru með örlögin í eigin höndum þegar stutt er eftir af tímabilinu en takist FH að vinna alla leikina þá verða þeir deildarmeistarar.
Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var í Kaplakrika og smellti af myndunum sem sjá má hér fyrir ofan.
Seltirningar gátu aftur á móti gengið langt með að gulltryggja sæti sitt í deild þeirra bestu á næsta ári með sigri í dag en framundan voru tveir leiki gegn liðum í fallbaráttunni.
Leikið var í Kaplakrika og voru heimamenn sterkari strax frá fyrstu mínútu en FH tók þriggja marka forskot inn í seinni hálfleikinn í stöðunni 13-10 og eftir það var ekki aftur snúið. FH-ingar bættu hægt og bítandi við forskotið og unnu að lokum átta marka sigur.
Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæstur í liði FH með sjö mörk og bætti Einar Rafn Eiðsson við fjórum mörkum en allir útivallarleikmenn FH nema einn komust á blað í leiknum.
Í liði Gróttu var Elvar Friðriksson atkvæðamestur með fimm mörk en Finnur Ingi Stefánsson bætti við fjórum mörkum.
FH-ingar eiga eftir að mæta Haukum og Selfyssingum í lokaumferðinni en örlögin eru áfram í þeirra höndum þegar skammt er til leiksloka.
Það verður væntanlega svakaleg stemming í DB-Schenker höllinni á miðvikudaginn þar sem FH-ingar geta með sigri stigið risaskref í átt að deildarmeistaratitlinum.
