Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, sagði að slæm byrjun hafi orðið sínum mönnum að falli í leiknum gegn FH í kvöld.
Þá hafi rauða spjaldið sem Heimir Óli Heimisson fékk á 54. mínútu reynst afar dýrt.
„Við vorum alltof passívir og flatir í byrjun og lengi í gang. Við gerðum okkur erfitt fyrir. En við vorum komnir inn í leikinn og með frumkvæðið en misstum hausinn á 54. mínútu. Í svona Hafnarfjarðarslag verðurðu að halda haus í 60 mínútur. Það var munurinn á liðunum í dag,“ sagði Gunnar.
Hann sagði að rauða spjaldið hefði verið réttur dómur og var aðallega fúll út í Heimi Óla sem gerði félögum sínum mikinn óleik með því að láta reka sig út af.
„Hárrétt, þetta var glórulaust. Deildarmeistaratitilinn var í húfi og fimm mínútur eftir. Með sigri hefðum við verið í kjörstöðu. Þú verður að halda haus,“ sagði Gunnar.
„Ég er rosalega svekktur að klára þetta ekki miðað við stöðuna sem við vorum komnir í. Þetta var svekkjandi,“ sagði þjálfarinn að lokum.

