Fjölmargir íslenskir knattspyrnumenn voru í eldlínunni í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Kjartan Henry Finnbogason skoraði mark Horsens sem gerði 1-1 jafntefli við Esbjerg á útivelli.
Kjartan Henry kom liði sínu yfir á 82. mínútu, níu mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður. Elfar Freyr Helgason lék allan leikinn fyrir Horsens og Guðlaugur victor Pálsson sömuleiðis fyrir Esbjerg.
Hjörtur Hermannsson lék allan leikinn í vörn Bröndby sem lagði Lyngby 3-2 á heimavelli. Hallgrímur Jónsson byrjaði á bekknum hjá Lyngby en kom inn á strax á þriðju mínútu.
Rúnar Alex Rúnarsson varði mark Nordsjælland sem lagði Midtjylland 2-1 á útivelli.
Hannes Þór Halldórsson var í marki Randers sem tapaði 1-0 fyrir SönderjyskE á útivelli. Ólafur Helgi Kristjánsson þjálfar lið Randers.
Björn Daníel Sverrisson fór meiddur af leikvelli á 8. mínútu þegar AGF tapaði 2-1 á heimavelli gegn OB. Theodór Elmar Bjarnason lék fyrstu 76 mínúturnar fyrir AGF.
