Fótbolti

Lewandowski bjargaði Bæjurum í Berlín

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lewandowski er kominn með 16 mörk í þýsku deildinni.
Lewandowski er kominn með 16 mörk í þýsku deildinni. vísir/getty
Robert Lewandowski bjargaði stigi fyrir Bayern München þegar liðið mætti Herthu Berlin í þýsku úrvalsdeildinni í dag. Lokatölur 1-1.

Bosníski framherjinn Vedad Ibisevic kom heimamönnum yfir á 21. mínútu og það mark virtist ætla að duga Berlínarliðinu til sigurs.

Lewandowski var á öðru máli og jafnaði metin þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Bayern er með átta stiga forskot á toppi deildarinnar. RB Leipzig getur minnkað forskot Bæjara niður í fimm stig með sigri á Borussia Mönchengladbach á morgun.

Dortmund er komið upp í 3. sæti deildarinnar eftir öruggan 3-0 sigur á Wolfsburg á heimavelli. Lukasz Piszczek og Ousmane Dembele voru á skotskónum auk þess sem Jeffrey Bruma, varnarmaður Wolfsburg, skoraði sjálfsmark.

Aron Jóhannsson sat allan tímann á varamannabekknum þegar Werder Bremen vann 0-2 útisigur á Mainz 05. Með sigrinum komst Bremen upp úr fallsæti.

Hoffenheim heldur áfram að gera góða hluti en í dag vann liðið 2-0 sigur á botnliði Darmstadt. Andrej Kramaric skoraði bæði mörkin. Hoffenheim er í 4. sæti deildarinnar og hefur aðeins tapað tveimur leikjum í vetur.

Þá fóru tvö rauð spjöld á loft í 0-2 útisigri Ingolstadt á Frankfurt.

Úrslitin í dag:

Hertha Berlin 1-1 Bayern München

Dortmund 3-0 Wolfsburg

Mainz 0-2 Werder Bremen

Hoffenheim 2-0 Darmstadt

Frankfurt 0-2 Ingolstadt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×