Haukar mæta botnliði Stjörnunnar á heimavelli. Þetta er fyrsti leikur Hauka eftir brotthvarf Janusar Daða Smárasonar sem hefur verið besti leikmaður deildarinnar undanfarin tímabil.
Í staðinn fengu Haukar króatíska risann Ivan Ivokovic. Um er að ræða tvítuga örvhenta skyttu sem telur 207 sentímetrar og vegur 115 kíló. Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður 365, hitti Ivokovic á dögunum og afraksturinn má sjá með því að smella hér.
Stjarnan byrjaði tímabilið vel og var komið með átta stig eftir sjö umferðir. En svo hallaði undan fæti hjá Garðbæingum sem hafa aðeins unnið einn af síðustu níu leikjum sínum.

Eyjamönnum, sem var spáð 2. sæti í spá forráðamanna, fyrirliða og þjálfara Olís-deildarinnar fyrir tímabilið, ollu vonbrigðum fyrir áramót. ÍBV situr í 6. sætinu með 16 stig, og er nær botninum en toppnum.
FH sækir Fram heim í Safamýrina. FH-ingar sýndu góða takta fyrir áramót og sitja í 3. sæti deildarinnar. Þá unnu þeir deildarbikarinn milli jóla og nýárs.
Fram, sem missti nánast heilt lið í sumar, hefur komið nokkuð óvart og er búið að safna 13 stigum og situr í 7. sæti deildarinnar. Fram vann tvo síðustu leiki sína fyrir HM-fríið.

Akureyringar byrjuðu liða verst og töpuðu sjö af fyrstu átta leikjum sínum. Árangurinn í næstu sex leikjum var hins vegar mjög góður; þrír sigrar og þrjú jafntefli. Töp í síðustu tveimur leikjunum fyrir áramót þýddi hins vegar að Akureyringar fóru inn í HM-fríið í fallsæti.
Valsmenn hafa verið upp og ofan og eru í 4. sætinu með 18 stig, jafnmörg og FH sem er í sætinu fyrir ofan.
Á Selfossi mæta heimamenn Gróttu. Hið unga lið Selfoss hefur unnið átta leiki og tapað átta. Varnarleikurinn hefur verið aðalhöfuðverkur Selfyssinga en aðeins Fram hefur fengið á sig fleiri mörk. Hins vegar eru Haukar eina liðið í deildinni sem hefur skorað meira en Selfoss.
Grótta vann fyrstu þrjá leiki sína á tímabilinu en síðan hafa Seltirningar aðeins unnið tvo af 13 leikjum.
Leikir kvöldsins:
18:00 Akureyri - Valur
19:30 Afturelding - ÍBV
19:30 Haukar - Stjarnan
19:30 Fram - FH
19:30 Selfoss - Grótta