Viðskipti innlent

Útgáfudögum Fréttatímans fækkað í tvo

Haraldur Guðmundsson skrifar
Útgáfudögum Fréttatímans hefur verið fækkað úr þremur í tvo og kemur blaðið nú ekki lengur út á fimmtudögum. Síðasta fimmtudagsblað fjölmiðilsins kom út 22. desember en blaðinu verður áfram dreift á föstudögum og laugardögum.

„Fréttatíminn kom alltaf út einu sinni viku en síðasta vor ákváðum við að gefa út tvö blöð. Þriðja útgáfan var hugsuð um haustið til að taka jólatraffíkina en við höfðum það svo sem opið ef það gæti gengið eitthvað áfram. Samningar gengu aftur á móti fyrst og fremst út á jólatraffíkina. Það er alltént líklegt að við tökum upp þráðinn næsta haust og gefum þá aftur út þrjú blöð,“ segir Valdimar Birgisson, framkvæmda- og auglýsingastjóri blaðsins, í samtali við Vísi.

Fréttablaðið greindi í morgun frá breytingum í hluthafahópi Fréttatímans. Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri blaðsins, keypti nýlega 16,5 prósenta hlut í Morgundegi, útgáfufélagi Fréttatímans, af Vogabakka, fjárfestingarfélagi Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar. Ritstjórinn verður því áfram stærsti einstaki eigandi útgáfufélagsins en hann á nú alls 46 prósent af hlutafé þess samkvæmt skráningu félagsins hjá Fjölmiðlanefnd.

Dexter fjárfestingar ehf., í eigu Sigurðar Gísla Pálmasonar, fjárfestis og eins eigenda Ikea á Íslandi, á 29 prósent og keypti því 10,9 prósent af Vogabakka. Valdimar Birgisson, framkvæmda- og auglýsingastjóri blaðsins, á fjórðungshlut. Eins og Fréttablaðið greindi frá hættu Árni, sem var stjórnarformaður útgáfufélagsins, og Hallbjörn afskiptum af rekstri Morgundags í haust eða um svipað leyti og ákveðið var að fjölga útgáfudögum í þrjá.


Tengdar fréttir

Árni og Hallbjörn fara út úr Fréttatímanum

Fjárfestarnir Árni Hauksson og Hallbjörn Karlssson hafa ekki komið að rekstri fjölmiðilsins síðan í haust. Ósáttir við ritstjórnarstefnuna og vildu komast út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×