Valtteri Bottas er nálægt því að semja við heimsmeistara Mercedes og Felipe Massa er þá líklegur til að snúa aftur til Williams liðsins, ef marka má sögusagnir.
Massa virðist hafa samþykkt sex milljón punda samning þess efnis að hann æki fyrir Williams liðið á næsta ári. Massa ætlaði að setjast í helgan stein eftir nýafstaðið tímabil. Nú virðist sem hann ætli að snúa aftur í sæti sitt hjá Williams.
Pat Symonds fráfarandi tæknistjóri Williams sagði nýlega að það væri gríðarlega mikilvægt fyrir lið að halda að lágmarki öðrum ökumanni sínum. Sértaklega þegar svona miklar tæknibreytingar eru framundan eins og nú stendur á.
Bottas er að því er virðist á barmi þess að landa eftirsóknarverðasta sætinu í akstursíþróttum. Það verður spennandi að fylgjast með baráttu Bottas og Lewis Hamilton sem fyrir er hjá Mercedes.
Liðsfélagi Massa hjá Williams verður þá Lance Stroll, 18 ára kanadískur ökumaður.
Ef rétt reynist er Massa að opna á tækifæri fyrir Bottas að fara til Mercedes. Williams hefði líklega ekki geta sleppt Bottas ef Massa hefði ekki komið inn, vegna þess hve mikilvægt er að hafa einhvern í liðinu sem veit hvernig bíllinn virkar og getur miðlað upplýsingum til verkfræðinga liðsins.
