Ljósmynd af ökuþórnum Michael Schumacher er nú til sölu fyrir eina milljón evra samkvæmt enskum og þýskum fjölmiðlum.
Engar myndir hafa birst af Schumacher síðan hann hlaut heilaskaða í alvarlegu skíðaslysi fyrir tæpum þremur árum síðan.
Fjölskylda og aðrir aðstandendur hafa lagt ofuráherslu á að verja einkalíf Schumacher eftir slysið og upplýsingagjöf um líðan hans og heilsu hefur verið lítil.
Umrædd mynd mun sýna Schumacher liggjandi í rúmi sínu eftir slysið en hann hefur eftir sjúkrahúsdvöl sína fengið umönnun á heimili sínu í Genf í Sviss.
Ekki er vitað hver hefur boðið myndina til sölu en yfirvöld í Offenburg í Þýskalandi hafa staðfest að málið hafi verið tekið til rannsóknar.
Skömmu eftir að Schumacher var lagður inn á sjúkrahús í desember 2013 reyndist blaðamaður, vopnaður myndavél, að smygla sér inn á herbergi hans með því að klæða sig upp sem prestur.