Fyrri æfingin
Max Verstappen varð annar á fyrri æfingunni á Red Bull bílnum. En forystusauðurinn í heimsmeistarakeppni ökumanna, Nico Rosberg á Mercedes varð þriðji.
Rosberg fer inn í helgina með 19 stiga forskot sem Hamilton þráir afar heitt að minnka eins og hann getur. Keppnin í Brasilíu er sú næstsíðasta á tímabilinu. Tækifærin eru því af skornum skammti fyrir ríkjandi heimsmeistara, Hamilton að reyna að festa hendur á titilinum í ár.
Helsta athygli vekur að Ferrari liðið var ekki í góðum gír á Interlagos brautinni. Sebastian Vettel var níundi á fyrri æfingunni á meðan Kimi Raikkonen var tíundi. Báðir rúmlega einni og hálfri sekúndu á eftir Hamilton.
Seinni æfingin
Aftur var Hamilton fljótastur en á seinni æfingunni varð Rosberg annar, einungis 0,030 sekúndum á eftir Hamilton. Það er því ljóst að spennan verður mikil í tímatökunni.
Williams menn sem höfðu verið ofar en við var búist á fyrri æfingunni komu öllum á óvart með því að næla í þriðja og fjórða sætið á seinni æfingunni. Brautin í Brasilíu hefur ekki hentað Williams bílnum neitt sérstaklega vel undanfarin ár, en greinilega kunna Valtteri Bottas og heimamaðurinn Felipe Massa vel við sig.
Helgin verður líklega afar tilfinningarík fyrir Massa en hann mun aka sinn síðasta Formúlu 1 kappastur á heimavelli á sunnudag. Auk þess sem þetta verður hans næst síðasta keppni í Formúlu 1. En Massa ætlar að setja hjálminn á hilluna frægu eftir tímabilið.
Bein útsending frá tímatökunni á laugardag hefst klukkan 15:50 á Stöð 2 Sport 4. Bein útsending frá keppninni hefst svo klukkan 15:30 á sunnudag, á Stöð 2 Sport.
Hér að neðan má sjá öll helstu úrslit helgarinnar.