Lewis Hamilton á Mercedes náði í sinn sextugasta ráspól í Formúlu 1 í tímatökunni í dag. Hann verður á undan liðsfélaga sínum og keppinaut í heimsmeistarakeppninni þegar keppnin hefst á morgun. Hver sagði hvað eftir tímatökuna?
„Mér hefur fundist ég verða hraðari og hraðari eftir því sem líður á helgina. Nico hefur einnig verið að finna hraða alla helgina. Ég hefði ekki getað óskað eftir betri byrjun á helginni. Liðið er búið að standa sig gríðarlega vel,“ sagði Hamilton heldur áfram að gera allt sem hann getur gert til að halda spennunni í heimsmeistaramótinu.
„Ég var bara ekki alveg nógu snöggur í dag. Lewis var örlítið fljótari í dag. Ég hugsa ekkert um að ég hafi einhverju að tapa á morgun. Við erum með góðan bíl í blautu og þurru. Þetta veðrur að koma í ljós á morgun,“ sagði Nico Rosberg sem mun væntanlega vilja berjast fyrir 25 stigunum á morgun sem eru í boði ef honum tekst að vinna keppnina.
„Ég var aðeins að klúðra upphituninni á dekkjunum og miðkafla brautarinnar. Hins vegar dugði það til að ná í þriðja sætið á ráslínu. Það er bara fínt, ég hitti á mjög góðan hring í lokin,“ sagði Kimi Raikkonen sem varð þriðji á Ferrari.
„Þetta gekk vel framan af en skyndilega hættu framdekkin að grípa og það er ömurlegt að lenda í þessu fyrir framan þessa mögnuðu áhorfendur. Ég mun gera allt sem ég get til að sýna þeim hvað ég get í keppninni á morgun. Síðasti hringurinn á morgun verður tilfinningaríkur,“ sagði heimamaðurinn Felipe Massa sem varð 13. á Williams bílnum.
