Fótbolti

Dortmund tilbúið að ræða sölu á Aubameyang til Real Madrid

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang skorar og skorar fyrir Dortmund.
Pierre-Emerick Aubameyang skorar og skorar fyrir Dortmund. vísir/getty
Þýska félagið Borussia Dortmund er tilbúið í viðræður við Real Madrid um sölu á gabonska framherjanum Pierre-Emerick Aubameyang þrátt fyrir að spænski risinn sé í félagaskiptabanni.

Hanz-Joachim Watzke, hinn málglaði framkvæmdastjóri Dortmund, ítrekar þó að Dortmund þurfi ekki að selja framherjann magnaða sem er búinn að skora 60 mörk í 86 leikjum í þýsku 1. deildinni.

Real Madrid er að áfrýja félagaskiptabanni sínu fyrir íþróttadómstólnum en eins og staðan er núna má félagið ekki kaupa leikmenn fyrr en í janúar 2018.

„Ef Real Madrid vill ræða við okkur erum við tilbúnir að setjast að borðinu en það verður ekki auðvelt. Við viljum halda Aubameyang. Ólíkt öðrum leikmönnum sem hafa yfirgefið okkur á síðustu árum er Aubameyang með langtíma samning til 2020,“ segir Watzke.

„Það er samt engin pressa á neinn aðila í þessu. Ég hef það á tilfinningunni að Aubameyang vilji ekki fara frá okkur,“ segir hann.

Framherjinn hefur sagt að yfirgefi hann Real verður það bara til Real Madrid þar sem hann lofaði afa sínum á dánarbeði hans að spila fyrir spænska liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×