Hlutabréfavísitölur í Evrópu og Asíu hafa hríðfallið það sem af er degi eftir niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslur Breta þar sem ákveðið var að Bretland myndi yfirgefa Evrópusambandið.
Breska pundið hefur fallið um tíu prósent og hefur ekki verið lægra síðan 1985. Fjárfestar voru einnig snöggir til að losa sig við hlutabréf í evrópskum fyrirtækjum og hafa hlutabréfavísitölur í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi fallið um sjö til tíu prósent. Hlutabréf breskra banka hrundu í morgun en hlutabréf bankanna Barclays og RBS féllu um allt að 30 prósent.
Úrslit kosninganna urðu ljós á meðan markaðir í Asíu voru enn opnir og féll hlutabréfavísitalan Nikkei í Japan um sjö prósent. Olíuverð hefur einnig lækkað í kjölfar niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar sem búist er við að muni hafa enn frekar áhrif á heimsmarkaði en mikil óvissa ríkir nú um hvaða áhrif brotthvarf Bretlands úr ESB muni hafa.
„Þetta er ógnvekjandi og ég hef aldrei séð neitt þessu líkt,“ segir James Butterfill, sérfræðingur hjá ETF Securites í London. „Mjög margir munu tapa miklum fjárhæðum.“
Forsvarsmenn Englandsbanka segjast fylgjast vel með þróuninni á mörkuðum og að þeir muni grípa til nauðsynlegra aðgerða til þess að bregðast við stöðunni og róa fjárfesta.
