Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands í fótbolta, hefur ekki áhuga á að taka við enska landsliðinu sem er í þjálfaraleit eftir að Roy Hodgson sagði upp störfum.
Hodgson kom enska landsliðinu á EM 2016 með því að vinna alla tíu leikina í undankeppninni en liðið olli svo miklum vonbrigðum í Frakklandi og var sent heim af Íslandi á mánudagskvöldið.
Egil „Drillo“ Olsen, fyrrverandi landsliðsþjálfari Noregs, sagði í norska sjónvarpinu að Lars ætti að vera eftirmaður Hodgson en Svíinn er ekki á sama máli.
„Nei, það held ég ekki. Þegar ég lít í spegil veit ég að það er kominn tími til að slaka aðeins á,“ sagði Lars á blaðamannafundi í Annecy í dag.
„Ég fer ekki í annað þjálfarastarf þó ég verði vonandi áfram tengdur fótboltanum. Ég þakka samt Drillo fyrir. Ég ber mikla virðingu fyrir honum,“ sagði Lars Lagerbäck.
Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).

