„Það er alltaf erfitt að vinna Formúlu 1 keppni, þó þessi kunni að hafa litið auðveldlega út. Ég og bíllinn vorum eitt í dag. Það gerist ekki oft svo það var frábært, þá er engin hætta á mistökum eða neitt,“ sagði Rosberg eftir allt að því auðveld 25 stig.
„Það kom á óvart að það var enginn öryggisbíll í dag. Ég er afar stoltur af liðinu við bættum okkur gríðarlega mikið. Það er gott að sjá við getum þetta,“ sagði Sebastian Vettel sem varð annar á Ferrari bílnum í dag.
„Ég bjóst við aðeins meiri hraða í dag. Ferrari fann mikinn hraða frá því á föstudaginn. Kimi [Raikkonen] var góður í dag en þegar ég fann öruggan stað til að taka fram úr án þess að taka áhættu þá varð ég að láta vaða, þrátt fyrir að ég vissi af refsingunni sem hann fékk,“ sagði Sergio Perez sem varð þriðji á Force India.

„Við höfðum ekki allan þann hraða sem við vonuðumst eftir í dag. Við gátum sem betur fer látið eitt þjónustuhlé duga í dag. Það var klárlega rétt áætlun,“ sagði Valtteri Bottas sem varð sjötti á Williams.
„Ég er ekki sáttur við niðurstöðu keppninnar. Við ræstum af fremstu ráslínu en enduðum allt of aftarlega. Afturdekkin voru ekki að endast hjá okkur í dag. Ég var farinn að spóla í fjórða og fimmta gír strax á fjórða hring. Það boðaði ekki gott,“ sagði Daniel Ricciardo sem varð sjöundi á Red Bull eftir að hafa ræst annar. Ástralinn hefði viljað enda framar.
„Ég lenti í gírkassabilun. Hún ágerðist alla keppnina og við ákváðum að hætta áður en bilunin myndi skemma út frá sér,“ sagði Fernando Alonso sem hætti keppni undir lokin.