Ófagnaðarerindið Guðmundur Andri Thorsson skrifar 7. mars 2016 00:00 Snorri Óskarsson, bókstafstrúarmaður kenndur við Betel, var rekinn úr kennarastarfi á Akureyri vegna ítrekaðra skrifa sinna á bloggsíðu um að samkynhneigð sé synd sem veki reiði Guðs og leiði til dauða. Hann vann mál gegn Akureyrarbæ fyrir Hæstarétti nú á dögunum, uppsögn hans var dæmd ólögmæt. Hann ætlar að sækja bætur til bæjarins, Nefndar hafa verið 12 milljónir.Baráttan um þyrnikórónuna Íslensk umræða er oft barátta um þyrnikórónuna, kapphlaup á krossinn. Píslarvætti þykir einatt ákjósanleg vígstaða – eins og við sáum til dæmis á dögunum þegar Ásmundur Friðriksson viðraði árásargjarnar skoðanir á flóttafólki og áður en nokkur hafði æmt var hann búinn að rífa af sér hjálminn og setja upp þyrnikórónu hins ofsótta manns í umræðunni. Hún fór honum ekki mjög vel. Mál Snorra í Betel þykir meðal annars snúast um það að maður geti viðrað umdeildar skoðanir sínar án þess að eiga það á hættu að missa starf sitt og lífsviðurværi. Gott og vel. Það er mikilvægt sjónarmið í opnu lýðræðissamfélagi. En það jafngildir ekki því að maður geti viðrað umdeildar skoðanir án þess að það hafi afleiðingar. Við berum alltaf ábyrgð á orðum okkar. Við þurfum alltaf sjálf að súpa seyðið af því sem við segjum og gerum. Það eru ekki mannréttindi að vera laus við það: hafi maður sagt eitthvað fíflalegt verður maður að una því að vera álitinn fífl. Segi maður eitthvað meiðandi býr maður við það að hafa meitt aðra manneskju með orðum. Maður skilur píslarvættisblæti bókstafstrúarmannsins en það er samt ekki hlaupið að því að sjá Snorra í Betel fyrir sér með þyrnikórónuna. Og því eru satt að segja takmörk sett hversu hversu mikla samúð hægt er að sýna þeim málstað hans að mega kalla eld og brennistein yfir samborgara sína vegna kynhneigðar í krafti einstrengingslegra túlkana á fornum bókstaf. Orðbragð af því tagi sem hann hefur tamið sér er ein tegund ofbeldis. Með árásum sínum á saklaust fólk boðar Snorri í Betel ekki fagnaðarerindið – heldur ófagnaðarerindið. Hann er, eins og segir í einni elstu heimild um íslenska spaugsemi, í Lárentíus sögu biskups frá 14. öld, „fagnaðarlaus kompán“.Kennslustarfið Sum störf fylgja manni alltaf. Það er hægt að vera útfararstjóri á virkum og þungarokkari um helgar. Það væri líka hægt að vera trésmiður á virkum en predikari um helgar í söfnuði sem tryði því að mannkynið væri komnir af kartöflum. Hversu fáránlegar sem kenningar smiðsins kynnu að virðast almenningi myndi ekki hvarfla að neinum að gagnrýna smíðarnar í ljósi trúarsetninganna. Við erum upp til hópa umburðarlynd í trúarefnum, til allrar hamingju. Við vitum flest að það er tilgangslaust að rökræða tilvist Guðs – raunar ámóta viskulegt og að fetta fingur út í kynhneigð annars fólks. Það er sem sé alveg hægt að gegna ýmsum hlutverkum – ekki síst hér á landi þar sem við þurfum hvert og eitt að vera að minnsta kosti fimm ólíkar manneskjur til að deilast nógu víða og anna skyldum milljónasamfélagsins. En um sum störf gegnir samt sérstöku máli. Til dæmis kennarastarfið. Okkur er ekki sama um það hvers konar fólk velst í þau störf. Sjálfur á maður minningar um ýmis skringimenni í þessari stétt sem virtust einbeittir í þeim ásetningi að gera mann að auðnuleysingja – en þó einkum um hina kennarana sem til allrar hamingju báru gæfu til að glæða með með manni þekkingarþrá og lífsgleði. Þeir kennarar voru góðir í sínu starfi – en líka góðar manneskjur. Og það er eiginlega það sem við viljum meðal annars að kennarar barnanna okkar séu: góðar manneskjur sem efli heilbrigð viðhorf og beini öllu þessu fjöri í farsælar áttir. Það er hægt að vera kennari á virkum og rokkari um helgar, ekkert mál. En það er ekki hægt að vera kennari á virkum og mannhatari um helgar. Það er ekki hægt að skrifa haturspistla um fólk og segja svo: „Ég var ekki kennari á meðan ég skrifaði þetta“. Þurfi maður á því að halda að hata annað fólk þarf maður að vera gegnheill í því; þar dugir engin hálfvelgja, maður hefur þar með sagt sig úr lögum við samfélag fólks sem ekki lætur hatur ráða för. Sennilega átti ekki að reka Snorra úr kennarastarfi eins og gert var, en það er ekki þar með sagt að hann sé vel til starfsins fallinn. Það er eitthvað brogað við að sitja við blogg og spúa úr sér hatri um annað fólk – jafnvel ástvini nemenda, jafnvel nemendur sjálfa með öllum þeim lífshættulega sjálfsefa sem fylgir vaknandi vitund um samkynhneigð – og vera svo bara mættur að kenna dönsku. Der var en bager på Nörregade?… Snorri virðist telja að skapari himins og jarðar – sem leit yfir sköpunarverk sitt á sjöunda degi og þótti það „harla gott“ – sé ósáttur við það sköpunarverk sitt sem laðast að eigin kyni. Hann vitnar í bókstaf í biblíunni, stífan af vandlætingu, gerir kynhegðun að þungamiðju hugmynda drottins um æskilegt mannlíf. Ég er ekki biblíufróður eins og Snorri og nenni ekki að rökræða löngu dauð siðaboð úr löngu dauðum samfélögum. Sjálfur man ég ekki betur en að sögurnar af Kristi snúist meira og minna um að hann sé að skaprauna bókstafstrúarmönnum og vinna kærleiksverk á alþýðufólki. Svo er ein saga um áhyggjur bókstafstrúarmanna af kynlífi annarra. Það er sagan um bersyndugu konuna, sem við hér á Íslandi notum að vísu oftast til að afsaka fjárglæframenn. Þeir standa þarna bálreiðir handhafar vilja Guðs og ætla að grýta konu fyrir að stunda kynlíf. Og Kristur ritar í sandinn: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.“ Snorri mætti velta þessari sögu fyrir sér næst þegar hann sest niður við tölvuna til að boða ófagnaðarerindið og handleikur fyrsta steininn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Snorri Óskarsson, bókstafstrúarmaður kenndur við Betel, var rekinn úr kennarastarfi á Akureyri vegna ítrekaðra skrifa sinna á bloggsíðu um að samkynhneigð sé synd sem veki reiði Guðs og leiði til dauða. Hann vann mál gegn Akureyrarbæ fyrir Hæstarétti nú á dögunum, uppsögn hans var dæmd ólögmæt. Hann ætlar að sækja bætur til bæjarins, Nefndar hafa verið 12 milljónir.Baráttan um þyrnikórónuna Íslensk umræða er oft barátta um þyrnikórónuna, kapphlaup á krossinn. Píslarvætti þykir einatt ákjósanleg vígstaða – eins og við sáum til dæmis á dögunum þegar Ásmundur Friðriksson viðraði árásargjarnar skoðanir á flóttafólki og áður en nokkur hafði æmt var hann búinn að rífa af sér hjálminn og setja upp þyrnikórónu hins ofsótta manns í umræðunni. Hún fór honum ekki mjög vel. Mál Snorra í Betel þykir meðal annars snúast um það að maður geti viðrað umdeildar skoðanir sínar án þess að eiga það á hættu að missa starf sitt og lífsviðurværi. Gott og vel. Það er mikilvægt sjónarmið í opnu lýðræðissamfélagi. En það jafngildir ekki því að maður geti viðrað umdeildar skoðanir án þess að það hafi afleiðingar. Við berum alltaf ábyrgð á orðum okkar. Við þurfum alltaf sjálf að súpa seyðið af því sem við segjum og gerum. Það eru ekki mannréttindi að vera laus við það: hafi maður sagt eitthvað fíflalegt verður maður að una því að vera álitinn fífl. Segi maður eitthvað meiðandi býr maður við það að hafa meitt aðra manneskju með orðum. Maður skilur píslarvættisblæti bókstafstrúarmannsins en það er samt ekki hlaupið að því að sjá Snorra í Betel fyrir sér með þyrnikórónuna. Og því eru satt að segja takmörk sett hversu hversu mikla samúð hægt er að sýna þeim málstað hans að mega kalla eld og brennistein yfir samborgara sína vegna kynhneigðar í krafti einstrengingslegra túlkana á fornum bókstaf. Orðbragð af því tagi sem hann hefur tamið sér er ein tegund ofbeldis. Með árásum sínum á saklaust fólk boðar Snorri í Betel ekki fagnaðarerindið – heldur ófagnaðarerindið. Hann er, eins og segir í einni elstu heimild um íslenska spaugsemi, í Lárentíus sögu biskups frá 14. öld, „fagnaðarlaus kompán“.Kennslustarfið Sum störf fylgja manni alltaf. Það er hægt að vera útfararstjóri á virkum og þungarokkari um helgar. Það væri líka hægt að vera trésmiður á virkum en predikari um helgar í söfnuði sem tryði því að mannkynið væri komnir af kartöflum. Hversu fáránlegar sem kenningar smiðsins kynnu að virðast almenningi myndi ekki hvarfla að neinum að gagnrýna smíðarnar í ljósi trúarsetninganna. Við erum upp til hópa umburðarlynd í trúarefnum, til allrar hamingju. Við vitum flest að það er tilgangslaust að rökræða tilvist Guðs – raunar ámóta viskulegt og að fetta fingur út í kynhneigð annars fólks. Það er sem sé alveg hægt að gegna ýmsum hlutverkum – ekki síst hér á landi þar sem við þurfum hvert og eitt að vera að minnsta kosti fimm ólíkar manneskjur til að deilast nógu víða og anna skyldum milljónasamfélagsins. En um sum störf gegnir samt sérstöku máli. Til dæmis kennarastarfið. Okkur er ekki sama um það hvers konar fólk velst í þau störf. Sjálfur á maður minningar um ýmis skringimenni í þessari stétt sem virtust einbeittir í þeim ásetningi að gera mann að auðnuleysingja – en þó einkum um hina kennarana sem til allrar hamingju báru gæfu til að glæða með með manni þekkingarþrá og lífsgleði. Þeir kennarar voru góðir í sínu starfi – en líka góðar manneskjur. Og það er eiginlega það sem við viljum meðal annars að kennarar barnanna okkar séu: góðar manneskjur sem efli heilbrigð viðhorf og beini öllu þessu fjöri í farsælar áttir. Það er hægt að vera kennari á virkum og rokkari um helgar, ekkert mál. En það er ekki hægt að vera kennari á virkum og mannhatari um helgar. Það er ekki hægt að skrifa haturspistla um fólk og segja svo: „Ég var ekki kennari á meðan ég skrifaði þetta“. Þurfi maður á því að halda að hata annað fólk þarf maður að vera gegnheill í því; þar dugir engin hálfvelgja, maður hefur þar með sagt sig úr lögum við samfélag fólks sem ekki lætur hatur ráða för. Sennilega átti ekki að reka Snorra úr kennarastarfi eins og gert var, en það er ekki þar með sagt að hann sé vel til starfsins fallinn. Það er eitthvað brogað við að sitja við blogg og spúa úr sér hatri um annað fólk – jafnvel ástvini nemenda, jafnvel nemendur sjálfa með öllum þeim lífshættulega sjálfsefa sem fylgir vaknandi vitund um samkynhneigð – og vera svo bara mættur að kenna dönsku. Der var en bager på Nörregade?… Snorri virðist telja að skapari himins og jarðar – sem leit yfir sköpunarverk sitt á sjöunda degi og þótti það „harla gott“ – sé ósáttur við það sköpunarverk sitt sem laðast að eigin kyni. Hann vitnar í bókstaf í biblíunni, stífan af vandlætingu, gerir kynhegðun að þungamiðju hugmynda drottins um æskilegt mannlíf. Ég er ekki biblíufróður eins og Snorri og nenni ekki að rökræða löngu dauð siðaboð úr löngu dauðum samfélögum. Sjálfur man ég ekki betur en að sögurnar af Kristi snúist meira og minna um að hann sé að skaprauna bókstafstrúarmönnum og vinna kærleiksverk á alþýðufólki. Svo er ein saga um áhyggjur bókstafstrúarmanna af kynlífi annarra. Það er sagan um bersyndugu konuna, sem við hér á Íslandi notum að vísu oftast til að afsaka fjárglæframenn. Þeir standa þarna bálreiðir handhafar vilja Guðs og ætla að grýta konu fyrir að stunda kynlíf. Og Kristur ritar í sandinn: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.“ Snorri mætti velta þessari sögu fyrir sér næst þegar hann sest niður við tölvuna til að boða ófagnaðarerindið og handleikur fyrsta steininn.