Heiner Brand, fyrrverandi þjálfari þýska landsliðsins í handbolta, lofar Dag Sigurðsson í hástert fyrir árangurinn sem hann náði með þýska landsliðið á EM í Póllandi.
Dagur stýrði þýska liðinu til Evrópumeistaratitils á sínu öðru stórmóti, en eins og oft hefur verið greint frá var Dagur án sjö lykilmanna þegar kom að undanúrslitunum og úrslitaleiknum sjálfum gegn Spánverjum.
Sjá einnig:Dagur gæti hugsað sér að þjálfa fótboltalið í framtíðinni
Heiner Brand stýrði þýska liðinu í fjórtán ár frá 1997-2011 og gerði liðið að Evrópumeistara 2004 í Slóveníu og heimsmeistara á heimavelli þremur árum síðar.
Brand og Dagur eru saman í guðatölu hjá þýskum handboltaáhugamönnum en þeir eru einu mennirnir auk Vlado Stenzel (HM 1978) og Otto Günther Kaundinya (HM 1938) sem stýrt hafa stærstu handboltaþjóð heims til sigurs á stórmóti.
„Dagur er einstakur karakter og átti stóran þátt í þessum árangri liðsins,“ er haft eftir Brand í Cologne Express og Hamburger Morgenpost í morgun. „Hann fann réttu leiðina að strákunum í liðinu og tók alltaf réttar ákvarðanir. Það passar mjög vel saman.“
Dagur byggði árangurinn á ungum mönnum, en þýska liðið var það yngsta í sögunni til að verða Evrópumeistari. Brand sér fram á bjarta framtíð hjá Degi og lærisveinum hans.
„Þjálfarinn getur valið úr stórum hópi leikmanna. Ef strákarnir halda sér á jörðinni og halda áfram að leggja mikið á sig getur þetta lið orðið mjög gott til lengri tíma. Þetta lið mun gefa okkur margar fallegar stundir til viðbótar,“ segir Heiner Brand.
Brand: Dagur er einstakur karakter

Tengdar fréttir

„Kraftaverkið í Kraká“ hjá Degi á pari við Dani 1992 og Grikki 2004
Dagur Sigurðsson stýrði yngsta liði EM-sögunnar til gulls eftir sigur á Spáni í úrslitaleik í gær.

Bestu mörkin og markvörslurnar frá úrslitahelgi EM Myndbönd
Þýskaland, Spánn, Noregur og Króataía buðu upp á nokkur mögnuð tilþrif í undanúrslitum og úrslitaleikjum Evrópumótsins.

„Stærstu þakkirnar fær Dagur Sigurðsson“
Fyrrverandi besti handboltamaður heims segir Dag lykilmanninn á bakvið árangur Þýskalands.

Dagur gæti hugsað sér að þjálfa fótboltalið í framtíðinni
Nýbakaður Evrópumeistari í handbolta hefur áður íhugað að fara út í fótboltaþjálfun.

Óli Stef: Dagur eyðir ekki orku í eitthvað bull
Besti handboltamaður Íslandssögunnar er mjög ánægður fyrir hönd æskuvinar síns.

Dagur: Angela Merkel bauð okkur í kaffibolla
Að leyfa nýju mönnunum að spila snerist ekkert um traust. Það var bara ekkert annað í boði.