Bob Hanning, maðurinn sem réði Dag Sigurðsson til Füchse Berlin á sínum tíma, lofaði þýska landsliðið í handbolta sem varð í dag Evrópumeistari í handbolta eftir sigur á Spánverjum í úrslitaleik. Dagur er í dag þjálfari þýska landsliðsins.
Hanning er í dag varaforseti þýska handknattleikssambandsins og hann var tekinn í viðtal hjá þýska sjónvarpinu ARD eftir leikinn í dag.
„Þetta var ótrúleg frammistaða, sérstaklega í vörn. Leikmennirnir endurskrifuðu söguna í dag með ótrúlegri frammistöðu og gríðarlegri baráttu.“
Hanning tók undir það að Dagur ætti stóran þátt í velgengni þýska liðsins. „Hann á bróðurpartinn af þessum árangri. En hann var með lið sem er skipað ungum og hungruðum leikmönnum. Þeir gerðu þetta allir saman með þjálfaranum.“
