Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana, er kominn aftur á ferðina eftir veikindi.
„Ég hef það fínt, er frískur og klár í bátana. Ég hlakka til leiksins á morgun,“ sagði Guðmundur í samtali við TV 2 en Danir mæta Spánverjum í Wroclaw í milliriðli 2 annað kvöld.
„Þetta var smá flensa en ég var betri í morgun,“ bætti Guðmundur við.
Aðstoðarþjálfarinn Thomas Svensson er hins vegar lagstur í rúmið auk þess sem leikstjórnandinn Rasmus Lauge hefur fundið fyrir slappleika.
Danir fóru með fjögur stig upp í milliriðil 2 líkt og Spánn en leikurinn á morgun gæti ráðið miklu um framhaldið.
Danir eiga harma að hefna gegn Spánverjum en lærisveinar Guðmundar töpuðu naumlega fyrir þeim í 8-liða úrslitum á HM í Katar í fyrra.

