Óðal feðranna Guðmundur Andri Thorsson skrifar 23. febrúar 2015 07:00 Þeir líða dagarnir við vetrarhörkur og þennan endalausa sökudólga-eltingaleik, hring eftir hring, þar sem valdamenn fyrri ára klukka hver annan og skiptast á að „vera'ann“, á meðan við fáum allra náðarsamlegast að fylgjast með. Hefur svo hver nokkuð að iðja. Nema svo koma allt í einu hátíðir þar sem fólk er verðlaunað fyrir vasklega framgöngu í listum og menningarlífi – þá birtir ögn og maður getur gleymt stórfiskaleik valdakallanna örskamma stund. Við tókum okkur sem sé til og drifum í að horfa á tvær íslenskar myndir sem hvor með sínum hætti glíma við íslenskt samfélag, París norðursins eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson en bráðlunkið handritið skrifað af Huldari Breiðfjörð og Vonarstræti eftir Baldvin Z þar sem Birgir Örn Steinarsson skrifar handritið með leikstjóranum. Þetta eru ólíkar myndir sem maður ætti kannski ekki að tala um í sömu andrá; önnur dregin stórum dráttum, allt að því melódramatísk og 19. aldarleg í rómantískri sýn sinni á ógæfu og synd en hin innhverf og ísmeygileg; en báðar eftir unga karlmenn sem vonandi fá að gera margar góðar myndir fyrir okkur. Báðar myndirnar eru um þetta sem góðar myndir fjalla oft um: Af hverju erum við svona? af hverju fór þetta svona hjá okkur? hvað er eiginlega að okkur?Gott og illt Í báðum myndunum fylgjumst við með ungu fólki reyna að fóta sig í íslenskri tilveru sem fer fram á forsendum gömlu skarfanna – gömlu stórfiskanna – og þar sem er eiginlega nánast vonlaust að lifa sómasamlegu lífi. Í báðum myndunum er ferningur: ungt par og eldri karlar, illt eyðingarafl og vanmáttug góðvild. Í Vonarstræti kynnumst við Eik, ungri og einstæðri móður sem vinnur á leikskóla en drýgir tekjurnar með vændi inn á milli (Hera Hilmarsdóttir) og Sölva, ungum fyrrum fótboltamanni á uppleið í bankanum (Þorvaldur Davíð Kristjánsson). Þetta eru góðir krakkar en leið þeirra er ólík: Í upphafi selur hún aðgang að líkama sínum en er laus úr ánauðinni í lokin. Í upphafi er hann frjáls fjölskyldumaður með sjálfa Maísólina í hádegisstað; í lokin hefur hann selt sál sína sömu öflunum og hún hafði áður selt sig. Í skurðpunkti myndarinnar hittist unga fólkið í hórferð bankstera til Flórída; þau fella hugi saman, ung og óspillt á þeirri stundu. Svo skilja leiðir og ungi maðurinn spillist en hún hreinsar sig með uppgjöri við fjölskyldu þar sem grunnurinn var lagður að ógæfu hennar með misnotkun afans (sem virðist faðir barnsins hennar). Hinn roskni karlinn sem er megingerandi í sögunni er skáldið Móri, sem Þorsteinn Bachmann hefur fengið verðugt lof fyrir að leika. Þetta er hin göfuga fyllibytta sem er kunnugleg persóna í íslenskum sagnaheimi, hið ölvaða stórskáld vígt ógæfunni; hið góða afl sem bregst. Hann vill öðrum vel, og einkum þó stúlkunni sem er á sama aldri og dóttir hans myndi hafa verið og á litla stúlku á sama aldri og litla dóttir hans var þegar hún drukknaði og er hið stóra áfall í lífi hans. Og um síðir tekst honum reyndar að bjarga ungu konunni með peningunum sem hann fær fyrir hjallinn sinn í hundraðogeinum þar sem til stendur að rústa öllu með risahóteli – og forða sér til suðrænu eyjunnar sem öll íslensk skáld eru alltaf á leiðinni til.Út í lífið á grænum miða París norðursins er hljóðlátari mynd, berangurslegri, kannski sérviskulegri en um leið verða persónur hennar manni nákomnari, þær verða raunverulegri og meira lifandi í stað þess að vera táknmyndir og týpur, eins og myndi henda í Vonarstræti ef hún væri ekki svona vel leikin. Getur verið að fólk sé að verða afvant því að sjá myndir þar sem ekki gengur á með sjáanlegum stórmælum, barsmíðum og ofbeldi? Maður hefur að minnsta kosti orðið þess var að sumu fólki þykir sagan veigalítil í París norðursins. Því fer fjarri. Þar er sögð mikil saga og rammlega bundin og myndin á við okkur margvísleg brýn erindi. Hún er snilldarlega leikin – meira að segja hundurinn leikur óaðfinnanlega. Kannski veldur Flateyri þessu – þessi magnaði bær undir ógurlegum fjöllum – kannski músíkin með þessu lagi eftir Prins Póló sem er svo fullt af séríslensku tregastuði – kannski ferðin á tökuvélinni, stundum hröð og stundum kyrr; eða bara svipsterkt andlitið á Birni Thors; myndin er á einhvern máta yfirþyrmandi sönn. Þar segir frá Huga, ungum kennara (Björn Thors) og Ernu, (Nanna Kristín Magnúsdóttir) ungri konu sem hann á í sambandi við, án þess að meina það alveg, og ungum syni hennar sem kennarinn binst sterkum böndum. Í rauninni er þetta hin heilaga fjölskylda, en Hugi veit það ekki; hann er með hugann þar og þá. Fulltrúi eyðingarinnar í þessari mynd er ólíkt viðkunnanlegri en viðskiptaúlfarnir í Vonarstræti; hér er þetta glaðsinna „lífskúnstner“ af kunnuglegu tagi, sem Helgi Björnsson leikur af nærfærni og glöggskyggni. Hann setur allt í bál og brand í sárfyndnum senum, ryðst inn í tilveru sonar síns, tekur hana yfir; og er sambandi þeirra skemmtilega lýst með sólpalli sem ýmist er verið að smíða eða rífa, og er reyndar risinn á ný í lokin. Fulltrúi uppbyggingarinnar er skólastjórinn og faðir Ernu sem Sigurður Skúlason býr til fallega persónu úr, hvort sem það er á hinum grátbroslegu AA-fundum, sem sýna fámennið í sinni ýktustu mynd, og þar sem hann fer með klisjurnar af svo fallegri einlægni að þær hljóma næstum eins og djúp speki eða lokasenan þegar hann heldur bugaður inn í húsið og Hugi fer burt frá skyldum sínum og lífinu sem hann gæti lifað út í „frelsið“ og óvissuna á bílnum sínum, sem vel að merkja er með grænum miða. Eins og íslenskt samfélag um þessar mundir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Þeir líða dagarnir við vetrarhörkur og þennan endalausa sökudólga-eltingaleik, hring eftir hring, þar sem valdamenn fyrri ára klukka hver annan og skiptast á að „vera'ann“, á meðan við fáum allra náðarsamlegast að fylgjast með. Hefur svo hver nokkuð að iðja. Nema svo koma allt í einu hátíðir þar sem fólk er verðlaunað fyrir vasklega framgöngu í listum og menningarlífi – þá birtir ögn og maður getur gleymt stórfiskaleik valdakallanna örskamma stund. Við tókum okkur sem sé til og drifum í að horfa á tvær íslenskar myndir sem hvor með sínum hætti glíma við íslenskt samfélag, París norðursins eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson en bráðlunkið handritið skrifað af Huldari Breiðfjörð og Vonarstræti eftir Baldvin Z þar sem Birgir Örn Steinarsson skrifar handritið með leikstjóranum. Þetta eru ólíkar myndir sem maður ætti kannski ekki að tala um í sömu andrá; önnur dregin stórum dráttum, allt að því melódramatísk og 19. aldarleg í rómantískri sýn sinni á ógæfu og synd en hin innhverf og ísmeygileg; en báðar eftir unga karlmenn sem vonandi fá að gera margar góðar myndir fyrir okkur. Báðar myndirnar eru um þetta sem góðar myndir fjalla oft um: Af hverju erum við svona? af hverju fór þetta svona hjá okkur? hvað er eiginlega að okkur?Gott og illt Í báðum myndunum fylgjumst við með ungu fólki reyna að fóta sig í íslenskri tilveru sem fer fram á forsendum gömlu skarfanna – gömlu stórfiskanna – og þar sem er eiginlega nánast vonlaust að lifa sómasamlegu lífi. Í báðum myndunum er ferningur: ungt par og eldri karlar, illt eyðingarafl og vanmáttug góðvild. Í Vonarstræti kynnumst við Eik, ungri og einstæðri móður sem vinnur á leikskóla en drýgir tekjurnar með vændi inn á milli (Hera Hilmarsdóttir) og Sölva, ungum fyrrum fótboltamanni á uppleið í bankanum (Þorvaldur Davíð Kristjánsson). Þetta eru góðir krakkar en leið þeirra er ólík: Í upphafi selur hún aðgang að líkama sínum en er laus úr ánauðinni í lokin. Í upphafi er hann frjáls fjölskyldumaður með sjálfa Maísólina í hádegisstað; í lokin hefur hann selt sál sína sömu öflunum og hún hafði áður selt sig. Í skurðpunkti myndarinnar hittist unga fólkið í hórferð bankstera til Flórída; þau fella hugi saman, ung og óspillt á þeirri stundu. Svo skilja leiðir og ungi maðurinn spillist en hún hreinsar sig með uppgjöri við fjölskyldu þar sem grunnurinn var lagður að ógæfu hennar með misnotkun afans (sem virðist faðir barnsins hennar). Hinn roskni karlinn sem er megingerandi í sögunni er skáldið Móri, sem Þorsteinn Bachmann hefur fengið verðugt lof fyrir að leika. Þetta er hin göfuga fyllibytta sem er kunnugleg persóna í íslenskum sagnaheimi, hið ölvaða stórskáld vígt ógæfunni; hið góða afl sem bregst. Hann vill öðrum vel, og einkum þó stúlkunni sem er á sama aldri og dóttir hans myndi hafa verið og á litla stúlku á sama aldri og litla dóttir hans var þegar hún drukknaði og er hið stóra áfall í lífi hans. Og um síðir tekst honum reyndar að bjarga ungu konunni með peningunum sem hann fær fyrir hjallinn sinn í hundraðogeinum þar sem til stendur að rústa öllu með risahóteli – og forða sér til suðrænu eyjunnar sem öll íslensk skáld eru alltaf á leiðinni til.Út í lífið á grænum miða París norðursins er hljóðlátari mynd, berangurslegri, kannski sérviskulegri en um leið verða persónur hennar manni nákomnari, þær verða raunverulegri og meira lifandi í stað þess að vera táknmyndir og týpur, eins og myndi henda í Vonarstræti ef hún væri ekki svona vel leikin. Getur verið að fólk sé að verða afvant því að sjá myndir þar sem ekki gengur á með sjáanlegum stórmælum, barsmíðum og ofbeldi? Maður hefur að minnsta kosti orðið þess var að sumu fólki þykir sagan veigalítil í París norðursins. Því fer fjarri. Þar er sögð mikil saga og rammlega bundin og myndin á við okkur margvísleg brýn erindi. Hún er snilldarlega leikin – meira að segja hundurinn leikur óaðfinnanlega. Kannski veldur Flateyri þessu – þessi magnaði bær undir ógurlegum fjöllum – kannski músíkin með þessu lagi eftir Prins Póló sem er svo fullt af séríslensku tregastuði – kannski ferðin á tökuvélinni, stundum hröð og stundum kyrr; eða bara svipsterkt andlitið á Birni Thors; myndin er á einhvern máta yfirþyrmandi sönn. Þar segir frá Huga, ungum kennara (Björn Thors) og Ernu, (Nanna Kristín Magnúsdóttir) ungri konu sem hann á í sambandi við, án þess að meina það alveg, og ungum syni hennar sem kennarinn binst sterkum böndum. Í rauninni er þetta hin heilaga fjölskylda, en Hugi veit það ekki; hann er með hugann þar og þá. Fulltrúi eyðingarinnar í þessari mynd er ólíkt viðkunnanlegri en viðskiptaúlfarnir í Vonarstræti; hér er þetta glaðsinna „lífskúnstner“ af kunnuglegu tagi, sem Helgi Björnsson leikur af nærfærni og glöggskyggni. Hann setur allt í bál og brand í sárfyndnum senum, ryðst inn í tilveru sonar síns, tekur hana yfir; og er sambandi þeirra skemmtilega lýst með sólpalli sem ýmist er verið að smíða eða rífa, og er reyndar risinn á ný í lokin. Fulltrúi uppbyggingarinnar er skólastjórinn og faðir Ernu sem Sigurður Skúlason býr til fallega persónu úr, hvort sem það er á hinum grátbroslegu AA-fundum, sem sýna fámennið í sinni ýktustu mynd, og þar sem hann fer með klisjurnar af svo fallegri einlægni að þær hljóma næstum eins og djúp speki eða lokasenan þegar hann heldur bugaður inn í húsið og Hugi fer burt frá skyldum sínum og lífinu sem hann gæti lifað út í „frelsið“ og óvissuna á bílnum sínum, sem vel að merkja er með grænum miða. Eins og íslenskt samfélag um þessar mundir.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun