Óvinir ríkisins Guðmundur Andri Thorsson skrifar 5. janúar 2015 07:00 Merkileg þessi sterka þörf hægri manna fyrir að „skrifa söguna“: ná að túlka hana á undan „hinum“ – og ekki bara sína sögu heldur kannski miklu fremur sögu andstæðinganna: Þeir líta á söguna sem herfang. Fyrir jólin las ég eina af þessum bókum; nýtt verk Styrmis Gunnarssonar sem hefur að geyma glímu hans við þau siðferðilegu álitamál sem hljóta að vakna með hverjum þeim sem stundað hefur að bera fé á einstakling í því skyni að fá hann til þess að rjúfa trúnað við félaga sína og senda þær upplýsingar síðan til húsbænda sinna, meðal annars eiganda Morgunblaðsins, sem Styrmir hefur verið afar hollur eins og sést á fyrri bókum hans, svo að minnir jafnvel á brytann góða í Downton Abbey. Upplýsingar Styrmis rötuðu jafnvel til Bandaríkjamanna, fulltrúa erlends stórveldis sem starfaði hér á landi með eigin hagsmuni að leiðarljósi fremur en Íslendinga – en Styrmir virðist enn ekki hafa áttað sig á því, eftir öll þessi ár og talar stundum eins og herinn hljóti að fara að koma aftur nú þegar Rumsfeld ráði ekki lengur.Bjargað frá Gúlaginu? Styrmir ræðir þessi mál af hispursleysi og það er gott framtak hjá honum að skrifa þessa bók og deila með okkur hinum hugrenningum sínum og minningum, jafnvel þó að hann virðist enn eiga erfitt með að horfast í augu við eigin gerðir sem fólust í mútum, njósnum og undirróðri gagnvart pólitískum andstæðingum í lýðræðisþjóðfélagi. Það er fljótsagt, að ekkert kemur fram í bókinni sem réttlætir þessa starfsemi, þó að höfundur streitist við að setja hana í alþjóðlegt samhengi kalda stríðsins. Standi Styrmir í þeirri trú að hann hafi bjargað Íslendingum frá Gúlaginu með því að bera fé á slefbera úr Sósíalistafélagi Reykjavíkur fær sú hugmynd ekki stuðning úr hans eigin bók. Ekkert sem Styrmir hefur orðið áskynja í heldur lítilmótlegu karpi innan raða sósíalista sjöunda áratugarins um sæti á framboðslistum, mannaforráð og takmarkaðar vegtyllur gefur ástæðu til að ætla að þeir hafi verið „handbendi Rússa“ eða starfað samkvæmt skipunum þaðan. Þar innan raða voru vissulega menn sem töldu enn að í Rússlandi væri að finna fyrirmynd um hið góða samfélag en slíkir menn höfðu æ minni áhrif innan flokksins eftir því sem fram liðu stundir og enduðu flestir sem sérlundaðir vitaverðir á útskögum. Þess vegna er hjákátleg margítrekuð áskorun Styrmis til Kjartans Ólafssonar fyrrverandi Þjóðviljaritstjóra um að gera hreint fyrir sínum dyrum eins og Styrmir telur sig sjálfan vera að gera með þessari bók: þar með ýjar hann að því að í pólitískri fortíð Kjartans séu einhver leyndarmál ámóta ljósfælin og mútu- og njósnastarfsemi hans sjálfs. Hann lætur að því liggja að Kjartan hafi á samviskunni einhver þau myrkraverk sem réttlæti áralangar hleranir á síma Kjartans og annarra sósíalista – þar á meðal vina Styrmis og tengdaföður, svo að Styrmir hefur áreiðanlega – eins og hann bendir sjálfur á – verið hleraður. Hann talar eins og þau sem skipulögðu og gengu Keflavíkurgöngur gegn erlendri hersetu á Íslandi hafi þar gengið erinda Rússa en ekki fyrir land sitt og þjóð, eins og raunin var.Skeggjabekkurinn Styrmir virkar flókin persóna – stundum hreinskiptinn og einlægur og stundum íbygginn yfir eigin leyndri vitneskju og ráðabruggi. Bókin er þversagnakennd. Í þeim fræga Skeggjabekk kynntist Styrmir nokkurs konar þverskurði af íslenskum sósíalistum og rekur þá vináttu í þessari bók eins og nokkurs konar kontrapunkt við allt undirferlið. Þarna er Jón Baldvin sem fæddist í Alþýðuhúsinu á Ísafirði og átti í vændum að verða íslenskur krataforingi, smáþjóðafrelsari og Evrópusinni númer eitt; þarna var Ragnar Arnalds sem enn er að berjast á móti Uppkastinu sem afi hans Ari Arnalds lét ásamt fleirum fella, svo að fullveldi Íslendinga tafðist um tíu ár. Þarna var Bryndís Schram, væn stúlka úr vesturbænum og vinstri sinnuð út af samlíðan með mönnunum. Þarna voru listamennirnir Atli Heimir, Magnús Jónsson og Brynja Benediktsdóttir – öll róttæk af því að fólk sem vildi búa til list og færa lit inn í tilveruna á Íslandi var vinstri sinnað á þeim árum – og ekki meira hallt undir Sovétríkin en tengdafaðir Styrmis, Finnbogi Rútur. Og þarna var Ragnar skjálfti, utanveltukommi og verðandi Fylkingarstaur með allri þeirri skringilegu blöndu af anarkisma, aktífisma, ættjarðarást, kommúnisma og allsherjar stuði sem þar mallaði. Ekkert þessara bekkjarsystkina Styrmis var á vegum Rússa – eins og hann veit ósköp vel sjálfur og viðurkennir. En það er eins og Styrmi sé fyrirmunað að draga rökréttar ályktanir af þessum kynnum – jafnvel enn í dag. Þessir krakkar voru ekki undantekning frá öðrum sósíalistum þessara ára. Þau voru reglan. Sósíalisminn var og er mannúðlegt sjónarmið og „félagsandi“ eins og Jónas Hallgrímsson nefndi það. Mörg myrkraverk voru vissulega unnin í nafni sósíalismans en fráleitt er að líta svo á að Íslendingum hafi verið forðað frá fangabúðavíti með því að hlera síma manna eða neita þeim um vinnu eins og stundað var á þessum árum gagnvart íslenskum sósíalistum. Því að Styrmir og félagar voru ekki varðmenn hins opna og lýðræðislega þjóðfélags. Þeir voru óvinir þess. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Merkileg þessi sterka þörf hægri manna fyrir að „skrifa söguna“: ná að túlka hana á undan „hinum“ – og ekki bara sína sögu heldur kannski miklu fremur sögu andstæðinganna: Þeir líta á söguna sem herfang. Fyrir jólin las ég eina af þessum bókum; nýtt verk Styrmis Gunnarssonar sem hefur að geyma glímu hans við þau siðferðilegu álitamál sem hljóta að vakna með hverjum þeim sem stundað hefur að bera fé á einstakling í því skyni að fá hann til þess að rjúfa trúnað við félaga sína og senda þær upplýsingar síðan til húsbænda sinna, meðal annars eiganda Morgunblaðsins, sem Styrmir hefur verið afar hollur eins og sést á fyrri bókum hans, svo að minnir jafnvel á brytann góða í Downton Abbey. Upplýsingar Styrmis rötuðu jafnvel til Bandaríkjamanna, fulltrúa erlends stórveldis sem starfaði hér á landi með eigin hagsmuni að leiðarljósi fremur en Íslendinga – en Styrmir virðist enn ekki hafa áttað sig á því, eftir öll þessi ár og talar stundum eins og herinn hljóti að fara að koma aftur nú þegar Rumsfeld ráði ekki lengur.Bjargað frá Gúlaginu? Styrmir ræðir þessi mál af hispursleysi og það er gott framtak hjá honum að skrifa þessa bók og deila með okkur hinum hugrenningum sínum og minningum, jafnvel þó að hann virðist enn eiga erfitt með að horfast í augu við eigin gerðir sem fólust í mútum, njósnum og undirróðri gagnvart pólitískum andstæðingum í lýðræðisþjóðfélagi. Það er fljótsagt, að ekkert kemur fram í bókinni sem réttlætir þessa starfsemi, þó að höfundur streitist við að setja hana í alþjóðlegt samhengi kalda stríðsins. Standi Styrmir í þeirri trú að hann hafi bjargað Íslendingum frá Gúlaginu með því að bera fé á slefbera úr Sósíalistafélagi Reykjavíkur fær sú hugmynd ekki stuðning úr hans eigin bók. Ekkert sem Styrmir hefur orðið áskynja í heldur lítilmótlegu karpi innan raða sósíalista sjöunda áratugarins um sæti á framboðslistum, mannaforráð og takmarkaðar vegtyllur gefur ástæðu til að ætla að þeir hafi verið „handbendi Rússa“ eða starfað samkvæmt skipunum þaðan. Þar innan raða voru vissulega menn sem töldu enn að í Rússlandi væri að finna fyrirmynd um hið góða samfélag en slíkir menn höfðu æ minni áhrif innan flokksins eftir því sem fram liðu stundir og enduðu flestir sem sérlundaðir vitaverðir á útskögum. Þess vegna er hjákátleg margítrekuð áskorun Styrmis til Kjartans Ólafssonar fyrrverandi Þjóðviljaritstjóra um að gera hreint fyrir sínum dyrum eins og Styrmir telur sig sjálfan vera að gera með þessari bók: þar með ýjar hann að því að í pólitískri fortíð Kjartans séu einhver leyndarmál ámóta ljósfælin og mútu- og njósnastarfsemi hans sjálfs. Hann lætur að því liggja að Kjartan hafi á samviskunni einhver þau myrkraverk sem réttlæti áralangar hleranir á síma Kjartans og annarra sósíalista – þar á meðal vina Styrmis og tengdaföður, svo að Styrmir hefur áreiðanlega – eins og hann bendir sjálfur á – verið hleraður. Hann talar eins og þau sem skipulögðu og gengu Keflavíkurgöngur gegn erlendri hersetu á Íslandi hafi þar gengið erinda Rússa en ekki fyrir land sitt og þjóð, eins og raunin var.Skeggjabekkurinn Styrmir virkar flókin persóna – stundum hreinskiptinn og einlægur og stundum íbygginn yfir eigin leyndri vitneskju og ráðabruggi. Bókin er þversagnakennd. Í þeim fræga Skeggjabekk kynntist Styrmir nokkurs konar þverskurði af íslenskum sósíalistum og rekur þá vináttu í þessari bók eins og nokkurs konar kontrapunkt við allt undirferlið. Þarna er Jón Baldvin sem fæddist í Alþýðuhúsinu á Ísafirði og átti í vændum að verða íslenskur krataforingi, smáþjóðafrelsari og Evrópusinni númer eitt; þarna var Ragnar Arnalds sem enn er að berjast á móti Uppkastinu sem afi hans Ari Arnalds lét ásamt fleirum fella, svo að fullveldi Íslendinga tafðist um tíu ár. Þarna var Bryndís Schram, væn stúlka úr vesturbænum og vinstri sinnuð út af samlíðan með mönnunum. Þarna voru listamennirnir Atli Heimir, Magnús Jónsson og Brynja Benediktsdóttir – öll róttæk af því að fólk sem vildi búa til list og færa lit inn í tilveruna á Íslandi var vinstri sinnað á þeim árum – og ekki meira hallt undir Sovétríkin en tengdafaðir Styrmis, Finnbogi Rútur. Og þarna var Ragnar skjálfti, utanveltukommi og verðandi Fylkingarstaur með allri þeirri skringilegu blöndu af anarkisma, aktífisma, ættjarðarást, kommúnisma og allsherjar stuði sem þar mallaði. Ekkert þessara bekkjarsystkina Styrmis var á vegum Rússa – eins og hann veit ósköp vel sjálfur og viðurkennir. En það er eins og Styrmi sé fyrirmunað að draga rökréttar ályktanir af þessum kynnum – jafnvel enn í dag. Þessir krakkar voru ekki undantekning frá öðrum sósíalistum þessara ára. Þau voru reglan. Sósíalisminn var og er mannúðlegt sjónarmið og „félagsandi“ eins og Jónas Hallgrímsson nefndi það. Mörg myrkraverk voru vissulega unnin í nafni sósíalismans en fráleitt er að líta svo á að Íslendingum hafi verið forðað frá fangabúðavíti með því að hlera síma manna eða neita þeim um vinnu eins og stundað var á þessum árum gagnvart íslenskum sósíalistum. Því að Styrmir og félagar voru ekki varðmenn hins opna og lýðræðislega þjóðfélags. Þeir voru óvinir þess.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun