Þennan bíl ætlar Daihatsu að sýna á Tokyo Auto Salon í Japan í næsta mánuði. Hann heitir Daihatsu Copen og er sannarlega agnarsmár, eða 3,4 metra langur og gerir bíl eins og Fiat 500 að risa. Í honum er heldur ekki stór vél en hún er með 0,66 lítra sprengirými og uppfyllir bíllinn því skilgreininguna “kei”-bíll í Japan. Lítið sprengirými er bætt upp með forþjöppu og því má búast við að þessi 850 kílóa bíll sé sprækur.
Daihatsu kynnti fyrst bíl undir nafninu Copen sem agnarsmáan blæjubíl árið 2002 og framleiddi hann í 10 ár og hætti þá framleiðslu hans. Framleiðsla á honum hófst svo aftur í fyrra og nú kynnir Daihatsu hann í tveimur nýjum útfærslum, með coupe-lagi og sem shooting brake.
Daihatsu ætlar svo að framleiða eina gerð Copen enn, upphækkað gerð hans með aukna torfærueiginleika og fær hann nafnið Copen Adventure. Ekki er ljóst hvort Daihatsu áformar að selja þessa Copen bíla í Evrópu, en þeir verða ekki í sölu í Bandaríkjunum.
