Fótbolti

Gaf til góðgerðarmála vegna brottvísunar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Xhaka fær hér rauða spjaldið um helgina.
Xhaka fær hér rauða spjaldið um helgina. Vísir/Getty
Svisslendingurinn Granit Xhaka virðist eiga í erfiðleikum með að hemja skap sitt en hann fékk um helgina sitt fimmta rauða spjald í aðeins 95 leikjum með Borussia Mönchengladbach í þýsku úrvalsdeildinni.

Xhaka fékk að líta rauða spjaldið í fyrri hálfleik gegn Darmstadt um helgina er hann sló til andstæðings þegar boltinn var hvergi nærri.

Twitter-síða Gladbach greindi frá því að Xhaka hafi ákveðið að gefa til góðgerðarmála til að bæta upp fyrir hegðun sína auk þess sem hann baðst afsökunar. Talið er að hann hafi gefið 20 þúsund evrur, jafnvirði tæpra þriggja milljóna króna.

Hann var engu að síður dæmdur í þriggja leikja bann af aganefnd þýska knattspyrnusambandsins í dag.

Xhaka hefur reglulega verið orðaður við Bayern München en hann hefur verið á mála hjá Gladbach síðan 2012, eftir að hann hóf feril sinn hjá Basel í heimalandinu. Xhaka er 23 ára gamall og lykilmaður í svissneska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×