Einn ríkasti maður Kína, Guo Guangchang, er týndur. Honum hefur verið líkt við bandaríska fjárfestinn Warren Buffet.
Starfsmönnum Fosun International, fyrirtæki Guanchang, hefur ekki tekist að ná í yfirmann sinn síðan í gærkvöldi. Fosun er eitt stærsta einkafyrirtækið í Kína. Því hefur verið velt upp að Guanchang sé í haldi lögreglu en samkvæmt færslum á kínverskum samfélagsmiðlum sást hann síðast í fylgd lögreglu.
Heimildarmaður BBC innan Fosun segir að líklegt sé að kínversk yfirvöld hafi beðið Guanchang um að aðstoða þau við rannsókn en hann var tengdur við spillingarmál í ágúst síðastliðnum.
Samkvæmt Forbes eru eignir Guanchang, sem stundum er kallaður hinn kínverski Warren Buffet, metnar á um sjö milljarða dollara sem eru um 900 milljarðar íslenskra króna. Hann er í 259. sæti á lista Forbes yfir ríkustu einstaklinga heims og er ellefti ríkasti maður Kína.
Hinn kínverski Warren Buffet týndur
